Háskóli Íslands

Algengar spurningar

Almennt:

Hvar finn ég nemendafélagið mitt? 
Hér má finna heimasíðu (Facebook síðu) Mentors Nemendafélags Félagsráðgjafardeildar. Nemendafélög hafa ekki sérstakar skrifstofur en þau hafa aðgang að aðstöðu Stúdentaráðs. Til að komast í samband við nemendafélagið þitt er best að hafa samband við ábyrgðaraðila, s.s. formenn, ritara eða gjaldkera. Yfirleitt eru upplýsingar um þá að finna á heimasíðum nemendafélaganna. 

Hvar fæ ég stúdentakort?
Sótt eru um Stúdentakort í Uglunni (Uglan mín --> Stúdentakort). Stúdentakort eru gefin út í tveimur mismunandi útgáfum og velur nemandinn aðra hvora. Bæði kortin eru auðkennis- og afsláttakort en annað er auk þess rafrænt aðgangskort. Auk þess að vera auðkennis- og afsláttakort veitir rafrænt aðgangskort korthafa aðgang að einum af kjörnum Háskólans (Háskólatorg, VRII, Askja og Hamar). Opnunartíma má sjá á Uglunni (Uglan mín --> stúdentakort).

Rafrænt aðgangskort kostar 1.500 kr. og fær handhafi þess 1.000 kr. til baka þegar kortinu er skilað. Auðkenniskort fær nemandi honum að kostnaðarlausu.

Vinsamlegast athugið að nemendur fá ekki ný stúdentakort árlega heldur er það endurnýjað með límmiða á Þjónustuborðinu Háskólatorgi.

Hvar get ég ljósritað?  
Á Landsbóksafni - Háskólabókasafni eru nokkrar ljósritunarvélar fyrir notendur safnsins. Hægt er að kaupa kort í afgreiðslu safnins á 1. hæð. Auk þess sér Háskólaprent, Fálkagötu 2, um alla almenna prentþjónustu gegn gjaldi. 

Hvar fæ ég upplýsingar um nám í erlendum háskólum?
Skrifstofa alþjóðasamskipta Háskóla Íslands gefur allar upplýsingar um nám erlendis. Nemendur sem hafa hug á því að ljúka starfsréttindanámi í félagsráðgjöf við erlenda háskóla er bent á að kynna sér reglur og viðmið um menntun félagsráðgjafa skv. lögum um félagsráðgjöf nr. 95/1990 með áorðnum breytingum.

Hvar nálgast ég stundatöflu?
Stundatöflur Félagsráðgjafardeildar er að finna undir ,,Stundatöflur“ undir „Flýtileiðir“ á forsíðu heimasíðu deildar. Stundastöflur einstakra nemenda eru einnig birtar í Uglu. Stúdentum er bent á að stundatöflur eru ávallt drög þar til kennsla er hafin.

Hvar finn ég bókalista fyrir námskeið? 
Á heimasíðu Bóksölu stúdenta eru bókalistar fyrir flest námskeið deildarinnar en kennsluáætlanir námskeiða, sem ávallt eru birtar á námskeiðsvef hvers námskeiðs í Uglu, innihalda áreiðanlegustu upplýsingarnar um innihald námskeiða á því misseri. Nemendur fá aðgang að námskeiðvef við skráningu í námskeiðið. Stundum má einnig nálgast bókalista inni á heimasvæði námskeiða í Uglu eða í kennsluskrá.

Hvar er Gimli?

Háskólabyggingin Gimli er á milli Háskólatorgs og Odda.

Hvar finn ég pósthólf kennara?
Pósthólf kennara eru á þjónustuborði í Gimli. Afgreiðslutími þjónustuborðs:
mán - fös kl. 08:00-16:00.

Má taka upp fyrirlestra?
Nemendum er með öllu óheimilt að nota upptökutæki (diktafóna) í kennslutímum í Félagsráðgjafardeild. Nemandi má hins vegar nota slík tæki hafi námsráðgjöf sérstaklega mælst til þess við kennara vegna persónulegra aðstæðna hans.

Umsókn um að fá að nota upptökutæki í kennslustundum

BA nám:

Hver eru inntökuskilyrði í deildina? Hvernig er með undanþágur?

Upplýsingar um undanþágur frá stúdentsprófi má finna í reglum fyrir Háskóla Íslands og í kennsluskrá.
Til að hefja nám við Félagsráðgjafardeild skal stúdent hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Lokapróf af frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóla Íslands og Tækniskóla Íslands) telst sambærilegt stúdentsprófi og nægir til inngöngu í Félagsráðgjfardeild, enda hafi viðkomandi stundað nám sem er ætlað fyrir þá sem hyggja á frekari nám í hug- eða félgasvísindum. Æskilegur undirbúningur fer eftir markmiðum þeirrar námsleiðar sem valin er. Nánari upplýsingar þar um eru í kennsluskrá og kynningarefni til nýrra stúdenta.

Hvernig fæ ég metið fyrra nám úr öðrum námsgreinum HÍ eða öðrum?
Stúdent sem óskar eftir mati á fyrra námi, annað hvort úr öðrum háskóla eða annari deild þarf að senda skriflegt erindi til Félagsráðgjafardeildar á þar til gerðu eyðublaði. Eyðublaðið er aðgengilegt á heimasíðu deildarinnar og má einnig nálgast hér.

Námsframvinda:

Er hægt að fá leyfi frá námi, hversu lengi og hvernig er það gert?

Nemendur geta fengið allt að tveggja missera leyfi frá námi en nemandi verður að vera skráður í háskólann til að teljast ekki hættur námi. Sótt er um leyfið skriflega til skrifstofu deildar. Til þess að sækja um leyfi frá námi skal sérstakt erindi berast deildinni þar sem tekið er fram hvaða ástæður liggja á bak við leyfisumsókn og fylgigögn henni viðkomandi t.d. læknisvottorði. Sé leyfið veitt fæst endurgreiðsla á hluta skrásetningargjalda frá Nemendaskrá. Nemandi sem hefur fengið leyfi frá námi þarf að fara með svarbréf deildar til Nemendaskrár til að fá endurgreiðsluna. Leyfi frá námi lengir ekki þann tíma sem nemandi hefur til að ljúka námi.

Hver er tímaramminn til að klára nám?

Samkvæmt reglum Félagsráðgjafardeildar hefur nemandi 9 misseri til að ljúka BA-námi og 6 misseri til að ljúka meistaranámi.

Hversu oft má falla í námskeiði?

Nemandi þarf að hafa samband við deildarskrifstofu falli hann tvisvar í sama námskeiði.

Námskeið og skráning:

Hvað þýðir „árleg skráning“?

Árleg skráning er skráning í námskeið næsta háskólarárs (haust- og vormisseri). Mjög mikilvægt er að sinna skráningu á tímabili árlegrar skráningar vor hvert þar sem árleg skráning jafngildir skráningu í skólann næsta ár.

Hvenær skrái ég mig í námskeið fyrir næsta háskólaár?

Upplýsingar um árlega skráningu er að finna í kennslualmanaki HÍ og nemendur skrá sig í námskeið í Uglunni á auglýstu tímabili. Ef stúdent sinnir þessu ekki er litið svo á að hann sé hættur námi. Ef veita þarf undanþágu frá þessu ákvæði er stúdent gert að greiða 15% álag á innritunargjaldið.

Hvenær get ég endurskoðað skráningu mína í námskeið?

Stúdent getur endurskoðað skráningu sína í upphafi kennslumisseris. Upplýsingar um tímafrest er að finna á kennslualmanaki Háskóla Íslands. 

Hvernig skrái ég mig úr námskeiði?

Til að skrá sig úr námskeiði ferðu inn í Ugluna þína og velur „námskeiðin mín“. Fyrir aftan hvert námskeið sem þú ert skráð/ur í birtist „úrskrá“ sem þú smellir á og vistar svo, þar með ertu skráð/ur úr námskeiðinu. Þetta þarf hins vegar að gera fyrir þá fresti sem settir eru í kennslualmanaki HÍ. 

Hver er hámarks einingafjöldi sem hægt er að skrá sig í?

Hámarksfjöldi eininga á misseri er 40 einingar. Stúdent með fyrstu eða ágætiseinkunn getur óskað eftir leyfi deildarskrifstofu til að skrá sig í fleiri en 40 ECTS einingar á misseri. 

Próf og einkunnir:

Hvenær get ég farið í sjúkrapróf?

Tímabil sjúkrapróf er birt í kennslualmanaki og vísað er til reglna Háskólans.

Hvar nálgast ég einkunnir mínar?

Einkunnir eru birtar á heimasvæði stúdenta á Uglunni.

Hvað gerist ef ég er að taka próf í öðrum deildum? 

Prófstjóri sér til þess að nemandi lendi ekki í prófi á sama tíma ef nemandi er að taka próf í fleiri en einni deild.

Hvar finn ég gömul próf?

Gömul próf eru á prófasafni inn á Uglu hafi kennari ákveðið að þau skuli vistuð þar.

Má taka upptökupróf í námskeiði sem ég hef staðist?

Nemendum er heimilt að taka próf aftur sem þeir hafa staðist ef þeir vilja hækka einkunn. Þetta er hægt bæði með því að skrá sig í upptökupróf eða aftur í námskeiðið. Ef nemandi velur að gera þetta þá fellur fyrri einkunn hans úr gildi. Það þýðir að ef nemandi lækkar í einkunn eða fellur á prófi í seinna skiptið þá gildir sú einkunn. Upptökupróf eru alla jafna ekki haldin nema sjúkrapróf séu haldin í námskeiðum.

Ef ég fell er ég þá sjálfkrafa skráð/ur í upptökupróf? 

Til að hafa próftökurétt í upptöku- eða sjúkraprófi þarf nemandi að að hafa skráð sig sérstaklega í gegnum Ugluna.

Er hægt að kæra einkunn? Hvernig gengur það fyrir sig?  

Nemandi þarf að hafa verið skráður í prófsýningu og hafa mætt í hana til að hafa heimild til að láta endurskoða einkunn sína. Beiðni þarf að senda innan tveggja vikna frá því að prófsýning var haldin, til deildarforseta, þar sem óskað er eftir prófdómara. Hafi skipaður prófdómari farið yfir prófið á nemandi ekki rétt á skipun nýs prófdómara. Einnig getur kennari eða meirihluti nemenda óskað eftir að prófdómari sé skipaður í einstöku prófi. Prófdómari verður þó ekki skipaður, ef meira en sex vikur hafa liðið frá birtingu einkunnar og þar til beiðni um skipunina berst.

Hvernig ganga prófsýningar fyrir sig? 

Nemendur þurfa að óska skriflega eftir prófsýningu innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Skráning fer fram á Þjónustuborðinu í Gimli. Prófsýningin er svo auglýst á heimasvæði námskeiðs eða tölvupóstur sendur til nemenda.

Hvað gerist ef ég skrái mig úr námskeiði áður en kemur að prófi? 

Með því að skrá sig úr námskeiði missir nemandi próftökurétt, bæði í reglulegu prófi og sjúkra- og upptökuprófi. Nemandi verður því að skrá sig aftur í námskeiðið næst þegar það verður haldið óski hann eftir þvi að taka próf í námskeiðinu.

Veikindi:

Veikindi í prófi - hvað á að gera?

Nemandi sem er veikur á prófdegi og getur þar að leiðandi ekki þreytt próf, verður að skila læknisvottorði á Þjónustuborðið á Háskólatorgi innan þriggja daga frá prófi. Sama gildir ef barn nemanda veikist. Ekki þarf að tilkynna um veikindin á prófdegi en nauðsynlegt er að skila læknisvottorðinu innan framangreinds frests. Sé það ekki gert telst nemandi vera fallinn á prófinu.

Hver er réttur minn til að taka sjúkra- og upptökupróf?

Sjúkra- og upptökupróf eru eingöngu fyrir þá nemendur sem hafa verið skráðir í námskeiðið og hafa þreytt prófið, fallið eða skilað veikindavottorði til nemendaskrár. Ekki er hægt að skrá sig beint í sjúkra- og upptökurpóf.

 

 

 

 

  

 

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is