Háskóli Íslands

Safnafræði - meistaranám - diplómanám

Viðfangsefni safnafræðinnar er varðveisla og miðlun menningararfsins í sinni víðtækustu mynd þar sem fræðileg vinnubrögð, rannsóknir og kenningar eru samtvinnaðar daglegum störfum á söfnum. Safnafræðin veitir yfirsýn, þekkingu og skilning á öllum þáttum safnastarfs svo og á hlutverki safna í samfélaginu. Einnig fæst safnafræðin við skoðun þeirra afla sem eru að verki við varðveislu og nýtingu menningararfsins.

 

Námið
Eftirfarandi námsleiðir á framhaldsstigi eru í boði  í safnafræði:

  • Meistaranám í safnafræði (120 ECTS): Meistaranám hentar fólki sem starfar eða vill starfa við varðveislu og miðlun menningararfsins og hefur lokið grunnháskólagráðu á einhverju sviði, BA, BS eða B.Ed.prófi
  • Diplóma í hagnýtri safnafræði (30 ECTS): Hagnýt safnafræði hentar fólki sem starfar á söfnum eða við varðveislu og miðlun menningararfs og lokið hefur háskólagráðu, BA, BS eða B.Ed.prófi.  Námið byggist upp á 30 e. skyldunámskeiðum og að því loknu er möguleiki á að halda áfram og útskrifast með meistaragráðu.

Fjarnám
Til að auðvelda íslenskum námsmönnum á landsbyggðinni eða erlendis aðgang að náminu, er, í samvinnu við Kennslumiðstöð HÍ, boðið upp á fjarkennslu í safnafræði á MA- stigi.

Fjarnámið er byggt upp í mikilli samvinnu við valin byggðasöfn og símenntunarstöðvar Háskóla Íslands í hverjum landshluta (9 á landinu í dag á Akureyri, Ísafirði, Selfossi, Akranesi, Vestmannaeyjum, Sauðárkróki, Egilsstöðum, Keflavík og Húsavík, auk útibúa). Áhersla verði lögð á að söfn á landsbyggðinni verði beinir þátttakendur í fjarkennslu og sérstaklega þarf að huga að því hvernig tryggja má nemendum í fjarnámi sambærilega menntun og aðrir nemendur njóta. Hér má horfa til uppbyggingar og mögulega til samstarfs við fjarnámsdeild Department of Museum Studies við University of Leicester.

Hvað læra safnafræðingar?
Safnafræðin fjallar jafnt um öll söfn, hvort sem viðfangsefni þeirra eru náttúruminjar, listir eða menningarminjar. Um leið og skoðað er hvað er sameiginlegt með öllum tegundum safna þá er skoðað ítarlega hvað skilur á milli þeirra í faglegri nálgun og fræðilegum bakgrunni. Hinn fjölbreytilegi fræðilegi bakgrunnur nemenda er liður í safnafræðináminu sjálfu enda er hann mikilvæg forsenda þess að frjóar umræður skapist meðal nemenda og stuðlar að víðsýni þeirra og auknum skilningi á fjölbreytileika safnastarfs og menningararfsins. Oftast stýrir grunnmenntunin vali einstaklingsins á verkefnum og ritgerðarefni, eðli starfsnámsins og innihaldi valnámskeiða og stendur jafnframt fyrir þeirri fagþekkingu sem er nauðsynlegur undirbúningur fyrir sérhæfð störf á söfnum. Þannig starfa listfræðingar á listasöfnum, jarðfræðingar á náttúruminjasöfnum og þjóðfræðingar á minjasöfnum, til að nefna nokkur augljós dæmi.

Á síðustu árum hefur áhugi á miðlun menningar- og náttúru- og tækniarfi okkar Íslendinga og árangur á því sviði farið vaxandi og víða um land hafa sprottið upp setur og sýningar, oftar en ekki í tengslum við menningartengda ferðaþjónustu. Mikilvægt er að hlúa að slíkri starfsemi og virkja þann kraft og þær hugsjónir sem oft á tíðum einkenna slíkt framtak. Viðurkennt er að menntun er mikilvægur þáttur í nýsköpun. Ef takast á að varðveita og miðla íslenskum menningar- og náttúruarfi á markvissan og faglegan hátt, hlúa að þeim möguleikum sem söfn og setur hafa á sviði atvinnu- og þekkingarsköpunar og um leið að efla hæfni íslenskra safnmanna til að taka þátt í samstarfsverkefnum jafnt innan lands sem utan, þá þarf að koma á fót sérhæfðri menntun á sviði safnastarfs.

Í nútímasamfélagi skipar meðferð menningar- og náttúruarfsins, hvort sem hún fer fram á söfnum, setrum, með sýningum eða á annan hátt, mikilvægan sess. Samfara því sem okkar þjóðlegi minjaarfur er varinn skemmdum, aukinn á honum skilningur með rannsóknum og nýjustu miðlunartækni beitt til að tryggja að honum aðgang með miðlun, eru mikil verðmæti sköpuð samfélaginu til handa. Metnaðarfullt safnastarf, auk frjós rannsóknarstarfs og árangursríkrar stefnumótunar á því sviði, getur aukið lífsgæði og þroska einstaklinga samfélagsins og skapað þeim tækifæri til sjálfsnáms, sjálfsþekkingar og aukins skilnings á því samfélagi sem þeir lifa í. Þessir þættir eru mikilvægir burðarliðir sjálfsmyndar og samkenndar íslensku þjóðarinnar, en samlegðaráhrif þeirra gegna mikilvægu hlutverki í að skapa samfélag sem þekkir fortíð sína og gengur öruggum skrefum fram á veginn.
Þegar horft er til framtíðar og þeirrar sjálfsmyndar sem íslenska þjóðin mun ala með sér er ljóst að mikilvægt er að huga í tíma að þeirri dýrmætu fjárfestingu sem felst í aukinni menntun með uppbyggingu mannauðsins, aukinni þekkingu og faglegri aðferðum.

Frændgreinar safnafræðinnar:
Þjóðfræði - Fornleifafræði - Ferðamálafræði - Listasaga - Sagnfræði - Líffræði - Mannfræði – Viðskiptafræði

Við uppbyggingu framhaldsnámsins er horft til erlendra fyrirmynda þar sem verklegir og fræðilegir þættir eru markvisst notaðir til þess auka skilning nemenda á öllum þáttum hefðbundins safnastarfs og samþáttun fræðilegra vinnubragða, rannsókna og kenninga. Áhersla verður lögð á að gefa nemendum kost á að kynnast ítarlega íslensku safnastarfi og jafnframt að fylgjast með því sem hæst ber erlendis. Heimsóknir á söfn og menningarstofnanir eru mikilvægur þáttur í náminu svo og þátttaka nemenda í ráðstefnum og fyrirlestrum sem tengjast söfnum og safnafræði. Kappkostað verður að fá innlenda og erlenda sérfræðinga til að koma að kennslu.

Helstu markmið með uppbyggingu safnafræðináms á meistarastigi eru:

  • að mennta hæft fólk í störf tengdum varðveislu, miðlun og stjórnun menningararfsins
  • að gefa íslenskum safnmönnum kost á endurmenntun
  • að skapa samstarfsvettvang fyrir HÍ og söfnin í landinu
  • að skapa forsendur fyrir samstarf safna og annarra mennta-og menningastofnana
  • að skapa miðstöð rannsókna safna og safnafræða
  • að örva rannsóknir og rannsóknarhæfni safna og safnmanna
  • að efla heildrænt skipulag íslensks safnastarfs
  • að stuðla að upplýstri og árangursríkri stefnumótun um skipulag safnamála í landinu

Atvinnumöguleikar
Sá heildarskilningur og sú fræðilega færni sem safnafræðingar öðlast á starfsemi tengdri söfnun, varðveislu og nýtingu á náttúru- og menningararfinum gerir þá vel í stakk búna til að starfa jafnt innan sem utan safnageirans við störf sem tengjast menningararfinum og miðlun hans. Sem dæmi um mögulegan starfsvettvang eru stjórnunarstörf við hvers kyns opinberar stofnanir og fyrirtæki sem koma að söfnun, varðveislu, rannsóknum, kennslu og miðlun menningararfs þar sem sérmenntun viðkomandi nýtist í starfi. Einnig má nefna verkefnastjórnun á sviði mennta- og menningarmála auk starfa sem tengjast menningartengdri ferðaþjónustu.

Sækja um

Hafa samband
Allar fyrirspurnir og erindi berist Ernu Rut Steinsdóttur, verkefnisstjóra í síma 525-5848 eða ernarut@hi.is
Ása Bernharðsdóttir verkefnisstjóri verður í leyfi skólaárið 2016-2017.

Umsjón með náminu hefur Sigurjón Baldur Hafsteinsson prófessor, sími 525 5496, sbh@hi.is


 

 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is