Háskóli Íslands

Náms- og starfsráðgjöf - meistaranám

Rafræn umsókn

Að leita leiða um námsbrautir skólakerfisins og finna sér starfsvettvang getur verið afar flókið verkefni. Námsbrautir eru margar bæði hérlendis og erlendis og störfin enn fleiri. Náms- og starfsráðgjafar aðstoða fólk á öllum aldri við þetta verkefni. Þeir þurfa að búa yfir ráðgjafarleikni og geta miðlað upplýsingum um nám og störf. Þá er mikilvægt að þeir geti
miðlað upplýsingum og fróðleik til fólks í stærri hópum, svo fátt eitt sé nefnt. Náms- og starfsráðgjafar starfa á grunnskólastigi, framhaldsskólastigi, háskólastigi, á símenntunarstöðvum, Vinnumálastofnun og
víðar.

Kynningarbæklingur um Náms- og starfsráðgjöf

Námið
Náms- og starfsráðgjöf er tveggja ára nám á meistarastigi sem lýkur með meistaraprófi (120e). Að námi loknu geta nemendur sótt um lögverndað starfsheiti sem náms- og starfsráðgjafi hjá menntamálaráðuneytinu.

Fram til ársins 2004 var námið eins árs diplómanám á framhaldsstigi, en frá 2004-2010 var boðið upp á eins árs viðbótarnám ofan á diplómanámið til MA-prófs.  Námið hefur verið endurskoðað og er nú heildstætt tveggja ára MA nám.

Uppbygging námsins
Náms- og starfsráðgjöf er skipulagt sem tveggja ára nám á meistarastigi. Námið skiptist í þrjá meginþætti:

 • Fræðileg námskeið
 • Starfsþjálfun
 • Aðferðafræði og meistararitgerð (30e)

Inntökuskilyrði

 • BA-, B.Ed- eða BS-próf eða sambærilegt próf með fyrstu einkunn.
 • Umsækjendur sem lokið hafa námi, sem ekki er á einu af eftirtöldum þekkingarsviðum: sálfræði, menntun og menntakerfi, tengsl einstaklings og samfélags, eða hafa ekki lokið a.m.k. 10 ECTS einingum í megindlegri aðferðafræði, gætu þurft að ljúka einu til þremur námskeiðum (hámark 30 ECTS) á fyrrgreindum sviðum.
 • Ef þeir sem sækja um að hefja MA nám í náms- og starfsráðgjöf, og uppfylla inntökuskilyrði, eru fleiri en unnt er að taka inn skal val nemenda byggjast á eftirtöldum sjónar­miðum:
  a. Einkunnum í háskóla.
  b. Starfsreynslu.
  c. Meðmælum frá vinnuveitanda ef umsækjandi hefur starfsreynslu, annars frá kennara umsækjanda í háskóla.
  d. Persónulegum greinargerðum um forsendur og áhugasvið.
  e. Viðtölum ef þurfa þykir.
  f. Að auki er heimilt að líta til dreifingar umsækjenda hvað varðar fyrstu prófgráðu, þannig að hlutfall nemenda verði sem jafnast með tilliti til greina sem þeir hafa lokið til BA-, B.Ed.- eða BS-prófs.
 • Reglur um inntöku nemenda

Diplómahafar
Vakin er athygli á því að diplómahöfum í náms- og starfsráðgjöf gefst eftir sem áður kostur á að ljúka MA-prófi með því að sækja um námið og ljúka þeim námskeiðum sem tilgreind eru í meðfylgjandi tilkynningu.

Nemendur er hvattir til að kynna sér uppbyggingu námsins og námskeiðslýsingar í kennsluskrá.

Atvinnumöguleikar
Hlutverk náms- og starfsráðgjafans er m.a. að aðstoða einstaklinga við að skoða sjálfa sig í tengslum við sí- og endurmenntun og vinnumarkað, þróa og móta eigin starfsferil ævina alla. Náms- og starfsráðgjafar starfa með börnum og unglingum í grunn- og framhaldsskólum, fullorðnum á háskólastiginu og tengslum við sí- og endurmenntun, atvinnuleit og endurhæfingu á vinnumarkaði. Einnig starfa náms- og starfsráðgjafar við fræðslustörf  og stjórnun hjá einkafyrirtækjum.

Félagslíf
Félag nemenda í náms- og starfsráðgjöf nefnist Filia. Hlutverk félagsins er að hafa forgöngu í félagslífi nema í náms- og starfsráðgjöf, gæta hagsmuna þeirra í hvívetna og vera fulltrúi þeirra innan Háskólans sem utan.

Frá uppskeruhátíð haustið 2012

Hafa samband
Vinsamlega sendið öll erindi og fyrirspurnir til Brynhildar Björnsdóttur deildarstjóra (fom@hi.is)
Halla María Halldórsdóttir, verkefnisstjóri er í leyfi 2016-2017.

 

Umsjón með náminu
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir prófessor og formaður námsbrautar, herbergi 133 í Gimli
Kristjana Stella Blöndal dósent, herbergi 131 í Gimli
Sif Einarsdóttir, prófessor, herbergi 132 í Gimli  

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is