Háskóli Íslands

Fötlunarfræði - meistaranám- diplómanám

Umsóknarfrestur fyrir MA nám á haustmisseri er 15. apríl og vormisseri 15. október ár hvert.  Opið er fyrir rafrænar umsóknir á umsóknartímabili. 
Rafræn umsókn.

Umsóknarfrestur fyrir viðbótardiplóma á haustmisseri er 5. júní og á vormisseri 30. nóvember. Opið er fyrir rafrænar umsóknir á umsóknartímabili. 
Rafræn umsókn.

Fötlunarfræði er þverfagleg fræðigrein sem leggur áherslu á að þróa félagslegan skilning á fötlun og rannsaka þátt menningar og umhverfis í að skapa og viðhalda fötlun. Markmið námsins er að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á fjölbreytilegum þáttum sem varða fatlað fólk og málefni þess. Nemendur í fötlunarfræði hafa fjölbreyttan bakgrunn svo sem úr heimspeki, táknmálstúlkun, bókmenntafræði, félagsráðgjöf, iðjuþjálfun, þroskaþjálfun, kennslu og víðar. Hinn margþætti bakgrunnur nemenda og persónuleg reynsla margra þeirra af fötlun er mikilvægur styrkur og gerir námið lifandi og skemmtilegt.

Nánari upplýsingar gefa: 
Snæfríður Þóra Egilson, prófessor og námsbrautarformaður (sne@hi.is) og Ásdís Magnúsdóttir, verkefnissstjóri sími 525-5497 (am@hi.is
 

Námið
Framhaldsnám í fötlunarfræði miðar að því að nemendur öðlist fræðilega og hagnýta þekkingu á málefnum fatlaðs fólks. Þetta felur meðal annars í sér þekkingu á sögulegri þróun kenninga og hugmynda um fötlun og rannsóknir á því sviði. Lögð er áhersla á fötlunarfræði sem þverfaglega fræðigrein og að nemendur kynnist þeim ólíku áherslum sem er að finna innan hennar. Í því skyni að tengja námið íslenskum aðstæðum er athyglinni sérstaklega beint að nýjum íslenskum fötlunarrannsóknum, auk þess sem fjallað er um erlendar rannsóknir og nýjungar í þjónustu við fatlað fólk. Fræðileg umfjöllun er sett í samhengi við baráttuhreyfingar fatlaðs fólks, þróun mannréttinda, alþjóðlega og innlenda stefnumótun og lagasetningar. Þá er rýnt í félagsleg og menningarleg viðbrögð við fötluðu fólki, meðal annars ímyndir þess og hlutverk í dægurmenningu, opinberum miðlum og almennri orðræðu. Líf, aðstæður og reynsla fatlaðs fólks er miðlæg í öllum viðfangsefnum námsins.

Fjölbreyttar námsleðir

Námsbraut í fötlunarfræði býður upp á fjölbreyttar námsleiðir til að mæta ólíkum þörfum og óskum þeirra sem hafa áhuga á náminu.

MA-nám í fötlunarfræðum (120 ECTS):
Meistaranám í fötlunarfræði er tveggja ára nám ætlað þeim sem vilja efla fræðilega þekkingu sína á fötlun og málefnum fatlaðs fólks. Nemendur geta sérhæft sig á ákveðnum sviðum allt eftir áhuga hvers og eins. Markmið námsins er að mennta fólk til leiðandi starfa. Námið nýtist á víðtækum vettvangi s.s. við rannsóknir, stefnumótun, réttindagæslu, störf innan þjónustukerfisins og á vettvangi baráttusamtaka fatlaðs fólks. Námið er 120 ECTS nám til prófgráðunnar MA og lýkur með 30-60 ECTS meistararitgerð.

MA-nám í fötlunarfræðum með áherslu á margbreytileika (120 ECTS):
Meistaranám í fötlunarfræði með áherslu á margbreytileika er tveggja ára nám. Náminu er ætlað að veita nemendum fræðilega og hagnýta þekkingu á fötlun sem einum þætti í margbreytileika mannlífsins. Fjallað er um hvernig fötlun tengist öðrum félagslegum þáttum, s.s. kyni, kynhneigð, þjóðernisuppruna, aldri og stétt, með sérstakri áherslu á samtvinnun þessara þátta í daglegu lífi. Námið er 120 ECTS nám til prófgráðunnar MA og lýkur með 40 ECTS meistararitgerð.

MA-nám í fötlunarfræðum með áherslu á opinbera stjórnsýslu (120 ECTS):
Meistaranám í fötlunarfræði og opinberri stjórnsýslu er tveggja ára nám sem undirbýr nemendur til starfa að málefnum fatlaðs fólks hjá ríki, sveitarfélögum eða félagasamtökum. Markmið námsins er að nemendur öðlist fræðilega og hagnýta þekkingu um fatlað fólk og málefni þess með áherslu á færni á sviði stjórnunar og stjórnsýslu. Námið er 120 ECTS nám til prófgráðunnar MA og lýkur með 30 ECTS meistararitgerð.

Diplómanám í fötlunarfræðum (30 ECTS)
Diplómanám í fötlunarfræðum er ætlað þeim sem hafa áhuga á að auka þekkingu sína á því sem efst er á baugi í tengslum við fötlun og málefni fatlaðs fólks. Markmið námsins er að nemendur kynnist helstu stefnum og straumum innan fötlunarfræða. Hægt er að fá diplómanámið metið sem hluta af MA-námi í fötlunarfræðum að uppfylltum inntökuskilyrðum. Námið er 30 ECTS fullgilt próf til prófgráðunnar, diplómapróf.

Diplómanám í fötlunarfræðum með áherslu á opinbera stjórnsýslu (32 ECTS):
Þetta áherslusvið í diplómanámi er ætlað þeim sem vinna með fötluðu fólki í opinberri stjórnsýslu. Í náminu er lögð sérstök áhersla á sveitarstjórnarstigið. Markmið námsins er að nemendur fái fræðilega og hagnýta þekkingu um fatlað fólk og málefni þess. Hægt er að fá diplómanámið metið sem hluta af MA-námi í fötlunarfræði og sem hluta af MPA-námi í opinberri stjórnsýslu með áherslu á fötlunarfræði að uppfylltum inntökuskilyrðum.

Doktorsnám í fötlunarfræðum (210 ECTS)


Umsjónarmenn náms
Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor  (hbs@hi.is)
Rannveig Traustadóttir, prófessor (rannvt@hi.is)
Snæfríður Þóra Egilson, prófessor og námsbrautarformaður (sne@hi.is)

 

 

 


 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is