Skip to main content

Eldfjallamatur

Benedikt G. Ófeigsson, doktorsnemi við Jarðvísindastofnun

„Við þurfum að átta okkur betur á undirlagi eldfjalla til þess að skilja hvernig eldfjöll haga sér og til þess að geta spáð betur fyrir um hvar og hvenær eldgos verða,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, doktorsnemi í jarðeðlisfræði við Jarðvísindastofnun háskólans.

Kvika safnast í kvikuhólf undir eldfjöllum sem á Íslandi eru oft á 3-5 km dýpi. Á þessu dýpi er jarðskorpan fjaðrandi. Það er þó alltaf að koma betur í ljós að mjög víða safnast kvika einnig fyrir á meira en tíu kílómetra dýpi. Á svona miklu dýpi skipta seigfjaðrandi eiginleikar jarðskorpunnar miklu máli. Benedikt skoðar yfirborðsbreytingar vegna kvikusöfnunar á yfir tíu km dýpi í nágrenni Heklu og við Upptyppinga með aðstoð gervitunglamynda (InSAR) og GPS-mælinga. Hægt er að segja til um yfirborðsbreytingar með innan við eins sentimetra nákvæmni.

Benedikt G. Ófeigsson

„Við þurfum að átta okkur betur á undirlagi eldfjalla til þess að skilja hvernig eldfjöll haga sér og til þess að geta spáð betur fyrir um hvar og hvenær eldgos verða.“

Benedikt G. Ófeigsson

Til þessa hafa rannsóknir jarðvísindamanna einkum beinst að kviku á minna dýpi. „Þessari grunnrannsókn er ætlað að auka skilning okkar á eðli og eiginleikum jarðskorpunnar og að lokum kemur hún væntanlega til með að nýtast í gerð betri líkana af kvikusöfnun á miklu dýpi,“ segir Benedikt.

Athygli vekur að landrisið umhverfis Heklu spannar svæði í 20 kílómetra radíus frá fjallinu  en risið nær hámarki í sex km fjarlægð frá toppi Heklu. „Mest rís landið fimm millimetra í sex kílómetra radíus frá fjallinu. Næst fjallinu sígur hins vegar jarðskorpan. Við teljum að það sé vegna þyngsla af nýjum hraunum sem fergja landið næst gosupptökunum.“

Aðspurður segir Benedikt ólíklegt að gos efjist langt frá fjallinu enda er það spennusvið jarðskorpunnar sem hefur mest áhrif á hvar kvikan kemur upp. „Kvika er langlíklegust til að koma upp þar sem jarðskorpan er veikust fyrir, s.s. í toppi Heklu þar sem gliðnun jarðskorpunnar er mest. Landris umhverfis Heklu bendir til að fjallið láti á sér kræla fyrr en síðar.“

Leiðbeinandi: Freysteinn Sigmundsson, sérfræðingur á Jarðvísindastofnun háskólans.