Háskóli Íslands

Norska

ATH! Norska er ekki í boði háskólaárið 2017-2018. Verður auglýst hvenær hún verður aftur í boði.

Íslendingar eiga ekki erfitt með að læra norsku. Norska er Norðurlandamál eins og íslenska – við töluðum meira að segja sama tungumálið fyrir þúsund árum! Bokmål, sem er málið sem flestir skrifa í Noregi, líkist dönsku ritmáli.

Markmið
Markmiðið með norskukennslunni er að nemendur læri að skilja, tala og skrifa norsku  reiprennandi. Auk þess öðlast þeir undirstöðuþekkingu í sögu, menningu og bókmenntum Noregs, bæði í málvísindalegu og bókmenntafræðilegu tilliti.

Námið
Námskeiðin eru fjölbreytt; sum eru hagnýt og snúast um að ná tökum á norsku í ræðu og riti. Önnur veita yfirgripsmikla þekkingu á bókmennta- og menningarsögu Norðmanna. Boðið er upp á námskeið í þýðingum, sögu og menning Noregs, eldri bókmenntum og nútímabókmenntum. Meðal annarra námskeiða sem boðið er upp á eru Nútímaleikritun – frá Ibsen til Fosse, Norskar barnabækur á 20. öld (þar sem m.a. eru lesin og rædd verk eftir Anne-Cath. Vestly, Torbjörn Egner, Alf Pröysen og Tor Åge Bringsværd ), Höfundarverk Hamsuns og fleira.

Í náminu eiga nemendur kost á nokkru vali og geta því að nokkru leyti sérhæft sig í samræmri við óskir og áhuga. Að námi loknu hafa nemendur norsku á valdi sínu og geta tjáð sig reiprennandi í ræðu og riti á blæbrigðaríkan hátt. Í náminu afla þeir sér fræðilegrar þekkingar og öðlast djúpan skilning á nokkrum sérhæfðum sviðum innan norsku, t.d. á þýðingum, norsku máli, bókmenntum, tengslum Noregs og Íslands eða notkun norsku í atvinnulífinu. Nemendur fá einnig þjálfun í að greina fjölbreytta texta og ólíkar aðstæður sem krefjast glöggs skilnings, þekkingar og færni í norskum fræðum.

Hægt er að tengja norsku við ýmsar aðrar greinar eftir áhugasviði, t.d. málvísindi, allmennar bókmenntir, þýðingafræði, önnur tungumál eða jafnvel greinar utan Hugvísindasviðs.

Nám í Noregi
Það er gott að stunda nám í Noregi. Þar eru aðstæður góðar fyrir námsmenn og góðir háskólar í Osló, Bergen, Kristiansand, Stavanger, Þrándheimi, Tromsö, Volda og víðar. Nemendur í norsku hér á landi geta sótt um sumarnámskeið í Noregi eða nám sem skiptinemar. Nemendur hafa ýmsa möguleika á að sækja um námsstyrki í Noregi, t.d. í gegnum Nordplus-samstarfið.

Hagnýtt gildi
Það er hagnýtt að læra norsku því að þeir sem þekkja norska menningu og kunna norsku geta fengið vinnu t.d. sem þýðendur, túlkar, við blaðamennsku, hjá forlögum eða við ferðaþjónustu og innan viðskiptageirans.

Norrænt samstarf er mikilvægt fyrir Íslendinga á mörgum sviðum og oft skiptir miklu máli að hafa góð tök á einhverju norrænu tungumáli.

Atvinnumöguleikar fyrir fólk með menntun í norsku eru margvíslegir, t.d. við störf í ferðaþjónustu, fræðastörf, þýðingar, störf tengd viðskiptum, blaðamennsku og önnur fjölmiðlastörf og störf í menningargeiranum. Auk þess fara margir Íslendingar til Noregs að læra.

Mörg fræðirit um fornt mál og miðaldamenningu Íslendinga eru á norsku. Noregur er á meðal helstu viðskiptalanda Íslands. Mörg íslensk fyrirtæki hafa einnig starfsemi í Noregi. Í Noregi fer fram mikilvæg umræða um sjávarútveg og málefni úthafsins. Loftvarnamál Íslendinga liggja að mestu leyti í höndum Norðmanna. Íslendingar þurfa að fylgjast með í því sem gerist í þessum málum í Noregi.

Margir af áhugaverðustu norrænu rithöfundum samtímans eru Norðmenn. Þar má t.d. nefna Ingvar Ambjörnsen, Lars Saabye Christensen, Linn Ullmann, Jon Fosse, Karin Fossum, Nikolaj Frobenius, Vigdis Hjort, Roy Jacobsen, Erlend Loe, Jo Nesbö, Per Pettersen, Anne B. Ragde, Dag Solstad, Gunnar Staalesen og Hanne Örstavik. Í stað þess að bíða og vonast eftir því að verk þessara höfunda verði þýdd á íslensku er hægt að lesa þau á frummálinu, og jafnvel þýða þau sjálf/ur!

Íslenskir íþróttamenn eru eftirsóttir í norskum liðum. Margir íslenskir knattspyrnumenn hafa getið sér gott orð í Noregi. Hví ekki að fylgjast með fréttum af þeim í norskum dagblöðum?

Kennsluhættir
Til þess að hefja nám í norsku þarf stúdentspróf eða sambærilega undirstöðu í norsku eða einhverju öðru Norðurlandamáli. Kennslan fer að mestu fram á norsku en stundum er gripið til annarra tungumála, svo sem ensku eða íslensku.

Kennsla í norsku fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og semínaræfingum. Í einstökum námskeiðum er boðið upp á sjálfstætt nám á netinu með leiðsögn kennara. Nemendahóparnir eru yfirleitt litlir svo að námið er sveigjanlegt eftir þörfum og óskum nemenda. Ef nemendur hafa áhuga geta þeir kynnst starfsemi og félagslífi norska sendiráðsins og Norræna hússins.

Húsnæði
Skrifstofa norska lektorsins er í Norræna húsinu. Kennsla fer að mestu fram þar en einnig í byggingum Háskólans. Í bókasafni Norræna hússins eru norskar bækur, kvikmyndir, tónlist og blöð. Á skrifstofu lektors er lítið handbókasafn og í Landsbókasafni – Háskólabókasafni eru bækur um málefni sem tengjast Noregi.
 
Námsleiðir í norsku
Norska er kennd til BA-gráðu (sem aðalgrein og aukagrein).

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám. Sjá upplýsingar um starfsfólk skrifstofu Hugvísindasviðs.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is