Háskóli Íslands

Dánarbú sýna útbreiðslu kaffimenningar á Íslandi

Már Jónsson

Már Jónsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild

„Íslendingum er hollt að þekkja lífsbaráttu forfeðra sinna. Sú lífsbarátta einkenndist vissulega af basli og fátækt sem birtist með átakanlegum hætti í skrám yfir eftirlátnar eigur. Þar koma hins vegar líka fram vísbendingar um ótrúlegt áræði og óskaplegan dugnað fólks við að sjá sér og sínum farborða,“ segir Már Jónsson, prófessor í sagnfræði, um rannsókn sína á dánarbúum á Íslandi á árunum 1740–1900.

Í rannsókninni tekur Már út og greinir þær eigur sem bæði alþýða og yfirstétt hafa látið eftir sig. „Dánarbúsuppskriftir og skiptabækur, sem sýslumenn héldu til haga, geyma nákvæmar skrár yfir allt lausafé sem fólk átti, svo sem fatnað, sængurföt, matarílát, verkfæri, silfurgripi og búfé,“ bendir Már á.

Kveikjan að rannsókninni var fyrirspurn frá Karli Aspelund þjóðfræðingi um fatnað alþýðumanna á 19. öld. „Hún varð til þess að ég sökkti mér ofan í nokkra böggla af borgfirskum dánarbúsuppskriftum og sá fljótlega að hér yrði að taka til hendinni og gera eitthvað almennilegt,“ segir Már.

Bráðabirgðatalning Más leiddi í ljós að til eru upplýsingar um hér um bil 1500 dánarbú frá því fyrir 1800 og nærri 25 þúsund frá 19. öld, flest frá áratugunum 1830–1870. „Þetta þýðir að upplýsingar eru til um næstum því fjórða hvern látinn fullorðinn einstakling og í öllum sýslum landsins hafa þessar upplýsingar varðveist vel. Dreifingin er einnig mikil í þeim skilningi að hinir látnu eru jafnt fátækir sem ríkir og allt þar á milli,“ segir Már.

Már hefur m.a. nýtt upplýsingar um kaffikatla og -kvarnir og bollapör úr dánarbúunum til þess að leggja mat á það hvernig kaffidrykkja dreifðist um íslenskt samfélag á 19. öld. „Á árabilinu 1819–1840 nífaldaðist innflutningur á kaffi úr tæpum fimm tonnum í 44 tonn. Næstu árin jókst innflutningurinn enn og á sjöunda áratug aldarinnar voru að jafnaði flutt inn nærri 200 tonn á ári eða þrjú kíló á hvert mannsbarn í landinu. Til samanburðar má nefna að árin 2007–2011 voru flutt inn 2230 tonn af kaffi eða sjö kíló á mann á ári,“ bendir Már á.

„Dánarbúin sýna lífskjör almennings á fyrri tíð betur en nokkrar aðrar heimildir. Með því að skrásetja varðveisluna auðvelda ég öðrum fræðimönnum að nýta heimildirnar, auk þess sem ég mun sjálfur gera það, jafnt við kennslu sem skriftir,“ segir Már að lokum.

Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is