Háskóli Íslands

Blóðstorkupróf til stýringar á blóðþynningu

Mynd frá afhendingu Nýsköpunarverðlaunanna 2011

Verkefnið „Fiix-prothrombin tími; nýtt blóðstorkupróf til stýringar á blóðþynningu“ hlaut Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands árið 2011.

Páll Torfi Önundarson, prófessor við Læknadeild og yfirlæknir á Landspítalanum, og Brynja R. Guðmundsdóttir, klínískur lektor á Landspítalanum, standa á bak við verkefnið. Með tilraunum sínum hafa þau fundið upp nýtt hagnýtanlegt blóðstorkupróf, svokallaðan Fiix-prothrombin tíma (Fiix-PT), til að stýra betur gjöf blóðþynningarlyfsins Kóvar. Lyfið tekur fólk til þess að koma í veg fyrir blóðtappa.

Tilraunir Páls Torfa og Brynju benda til þess að hið nýja storkupróf kunni að hafa kosti umfram núverandi aðferðir, m.a. að blóðþynning verði öruggari og betri. Sótt hefur verið um einkaleyfi á hugmyndinni í samvinnu við hugverkanefnd Háskóla Íslands og Landspítala með það fyrir augum að markaðssetja prófið.  Frekari rannsóknir vegna þess eru fyrirhugaðar, þar á meðal umfangsmikil klínísk samanburðarrannsókn á árangri stýringar með nýju aðferðinni miðað við núverandi aðferð.

Alls bárust 16 hugmyndir í samkeppnina og voru þær af ýmsum fagsviðum innan háskólans. Verðlaunin í samkeppninni nema samtals einni milljón króna.

Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is