Háskóli Íslands

Stefna og markmið

Stefna HÍ 2011-2016
Stefna HÍ 2011-2016 (.pdf)

Stefna Háskóla Íslands 2011-2016

Langtímamarkmið Háskóla Íslands

Kristín Ingólfsdóttir og Jóhanna SigurðardóttirHáskóli Íslands er alþjóðlegur rannsóknaháskóli og hefur jafnframt ríkum skyldum að gegna við íslenskt samfélag, menningu og tungu. Í háskólanum eru um 14.000 nemendur í grunn- og framhaldsnámi, þar af eru um 1.100 erlendir nemar. Háskólinn hefur heimild til að brautskrá doktora á öllum fræðasviðum sínum. Skólinn er í nánu samstarfi við marga af helstu rannsóknaháskólum og háskóladeildum heims. Rannsóknavirkni starfsmanna hefur vaxið hratt á undanförnum árum og sýna alþjóðlegir mælikvarðar að áhrif rannsókna þeirra hafa aukist verulega.

Árið 2006 setti Háskóli Íslands sér það langtímamarkmið að komast í hóp hundrað fremstu háskóla í heimi. Önnur Norðurlönd eiga átta skóla í þessum hópi, en þeir eru Háskólinn í Kaupmannahöfn, Háskólinn í Árósum, Háskólinn í Osló, Karolinska Institutet í Stokkhólmi, Háskólinn í Uppsölum, Háskólinn í Lundi, Háskólinn í Stokkhólmi og Háskólinn í Helsinki. Auk þess eru á annan tug norrænna háskóla, sem eru svipaðir að stærð og uppbyggingu og Háskóli Íslands, á meðal fremstu háskóla heims. Árangur Háskóla Íslands á undanförnum árum sýnir að raunhæft er að stefna áfram að þessu langtímamarkmiði.

Fyrsti áfangi: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011

Fyrsti áfangi á þessari vegferð var Stefna Háskóla Íslands 2006–2011. Meginmarkmið stefnunnar var að ná framúrskarandi árangri á sviði rannsókna, kennslu, stjórnunar og stoðþjónustu. Stefnan fól í sér ríflega eitt hundrað mælanleg og tímasett undirmarkmið sem lúta að öllum sviðum starfseminnar. Í framhaldinu settu allar deildir háskólans sér stefnu og markmið sem byggðust á heildarstefnunni. Meðal helstu markmiða Háskóla Íslands til ársins 2011 voru að:

 • tvöfalda fjölda vísindagreina í virtustu alþjóðlegum ritrýndum tímaritum
 • auka samstarf við erlenda háskóla og háskóladeildir í fremstu röð í heiminum
 • auka sértekjur, m.a. úr innlendum og erlendum rannsóknasjóðum
 • fimmfalda árlegan fjölda brautskráðra doktora
 • efla gæðakerfi kennslu
 • setja á stofn Miðstöð framhaldsnáms til að tryggja gæðakröfur í framhaldsnámi
 • efla stoðþjónustu við rannsóknir og kennslu
 • innleiða nýtt skipulag og stjórnkerfi til að auðvelda sókn að settum markmiðum.

Afar mikilvægt skref var stigið árið 2007 með árangurstengdum samningi Háskóla Íslands og stjórnvalda um fjármögnun stefnunnar. Háskólinn hefur fylgst náið með framgangi hennar og gert árlega grein fyrir árangrinum. Nú undir lok fyrsta áfanga stefnunnar hefur háskólinn lagt heildstætt mat á framkvæmdina og fyrir liggur að flestum markmiðum hefur verið náð og í sumum tilvikum sýna lykilmælikvarðar að árangur hefur verið umfram áætlanir. Á tímabilinu 2005–2010

 • fjölgaði vísindagreinum fræðimanna háskólans í virtum alþjóðlegum ritrýndum tímaritum úr 260 í 550 (2009) og tilvitnunum úr 5.100 í 10.000 (2009)
 • jókst heildarfjárhæð sértekna um 78% og styrkir úr erlendum samkeppnissjóðum þrefölduðust
 • fjölgaði doktorsnemum úr 166 í 440 og brautskráðum doktorum úr 13 árið 2005 í 36 árið 2010
 • fjölgaði styrkjum til doktorsnema í 106 en engir slíkir styrkir voru í boði árið 2005

Fjölmörgum öðrum framfaramálum stefnunnar hefur verið hrint í framkvæmd í fyrsta áfanga. Matskerfi rannsókna hefur verið endurskoðað, nýtt ráðningar- og framgangskerfi innleitt, gæðanefnd háskólaráðs sett á laggirnar, samstarf við fremstu háskóla í heimi eflt, tengsl við atvinnulíf styrkt og markvissum aðgerðum beitt til að laða að hæfustu nemendurna og auka virkni í námi. Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands voru sameinaðir 1. júlí 2008 í þeim tilgangi að efla kennaramenntun og rannsóknir í mennta- og uppeldisvísindum.

Annar áfangi: Stefna Háskóla Íslands 2011-2016

Annar áfangi að langtímamarkmiðinu er Stefna Háskóla Íslands 2011–2016. Í henni er lögð áhersla á að efla gæði og styrkja innviði allra þátta háskólastarfsins. Í því skyni hefur háskólinn sett sér markmið um rannsóknir og nýsköpun, nám og kennslu, mannauð og ábyrgð gagnvart samfélaginu og umheiminum. Helstu stef stefnunnar eru áhersla á gæðarannsóknir og alþjóðlegt samstarf, þróttmikið framhaldsnám sem uppfyllir alþjóðlegar gæðakröfur, samþættingu kennslu og rannsókna á öllum námsstigum, eflingu mannauðs og starfsánægju stúdenta og starfsmanna og samfélagslega og hnattræna ábyrgð á 21. öld. 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is