Háskóli Íslands

Stefna 2006 - 2011

Ávarp rektors

Hlutverk Háskóla Íslands er að þjóna íslensku samfélagi á hverjum tíma og stuðla að framförum og hagsæld. Um fátt ríkir meiri sátt en að velsæld þjóða á 21. öld byggist á því hve hratt og örugglega þær örva þekkingarsköpun, bæta menntun og nýta sér hana. Þess vegna þarf háskólanám og vísindastarfsemi hérlendis að vera á heimsmælikvarða. Við viljum því gera sáttmála við þjóðina um að sækja hærra og lengra.

Háskóli Íslands leggur hér fram stefnu sína fyrir tímabilið 2006-2011. Við mótun hennar hafa nær allir starfsmenn skólans lagt hönd á plóg, ásamt fulltrúum stúdenta og nýdoktora. Haft var samráð við fólk úr stjórnmálum, atvinnulífi og menningarlífi og úr alþjóðlegu háskólasamfélagi. Í þessum stóra og fjölbreytta hópi greinir engan á um að Ísland verði best búið til þátttöku í alþjóðasamfélaginu með því að veita verðandi leiðtogum og sérfræðingum á öllum sviðum bestu fáanlegu menntun. Einhugur ríkir um að Háskólinn hafi alla burði til að komast í fremstu röð háskóla í grunnnámi, framhaldsnámi og vísindarannsóknum.

Háskóli Íslands varð til í bláfátæku en þróttmiklu samfélagi bænda og sjómanna. Það þurfti framsýni og stórhug til að setja hér á fót æðri menntastofnun árið 1911. Starf Háskólans og uppbygging hefur alla tíð verið sigurganga. Háskólinn hefur skapað hér sannkallaða þekkingarsmiðju, alið af sér vísinda- og fræðimenn sem njóta virðingar um allan heim og átt drjúgan þátt í að gera Íslendinga að einni ríkustu þjóð veraldar. Íslendingar bæði verða og vilja byggja hér upp háskóla í fremstu röð. Háskóli Íslands hefur sett sér háleit markmið og lagt í vegferð. Með þessu skjali er vegurinn varðaður og sóknin að marki skipulögð.

Kristín Ingólfsdóttir
rektor Háskóla Íslands

Vaxandi Háskóli

Háskóli Íslands er alþjóðlegur háskóli í örum vexti sem hefur margvíslegum skyldum að gegna við íslenskt samfélag. Á öllum meginfræðasviðum Háskólans starfa vísinda- og fræðimenn sem sótt hafa menntun sína til margra helstu háskóla heims og eru í fremstu röð á sínu sviði. Rannsóknavirkni starfsmanna Háskólans og tengdra stofnana hefur vaxið hratt og eru þeir höfundar 80% allra vísindatímaritsgreina sem Íslendingar birta í alþjóðlegum ritrýndum ISI-tímaritum (upplýsingar um alþjóðleg ritrýnd ISI-tímarit má finna á slóðinni http://scientific.thomson.com/mjl/).

Skráðir nemendur við Háskóla Íslands eru 9.500 og stunda þeir nám á 286 námsleiðum innan flestra sviða vísinda og fræða, þ.e. í félagsvísindum, heilbrigðisvísindum, hugvísindum, raunvísindum og verkfræði. Mikil gróska hefur verið í framhaldsnámi við Háskólann síðustu ár og fjölgaði framhaldsnemum úr 500 í 1.600 á árunum 1999 - 2006. Á sama tíma hefur nemendum í doktorsnámi fjölgað hlutfallslega mest, úr 36 í 190.

Háskólinn leggur síaukna áherslu á alþjóðleg samskipti. Þriðjungur rannsóknarverkefna kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands er unninn í samvinnu við erlenda vísindamenn. Gert er ráð fyrir að doktorsnemar verji hluta af námstíma sínum við erlenda háskóla og vísindastofnanir. Í gildi eru samningar við á fjórða hundrað háskóla um nemenda- og kennaraskipti. Erlendum stúdentum við Háskólann hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og eru þeir nú 650.

Háskóli Íslands er í nánum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf. Háskólinn hefur brautskráð yfir 30.000 nemendur, sérfræðinga og stjórnendur, sem hafa tekið virkan þátt í uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Skoðanakannanir sýna að Háskóli Íslands nýtur trausts íslensku þjóðarinnar umfram aðrar opinberar stofnanir. Í krafti sérþekkingar sinnar taka kennarar skólans virkan þátt í opinberri umræðu og sinna margvíslegri ráðgjöf. Háskólinn hefur um árabil rekið öfluga endurmenntunarstofnun sem nýst hefur vel í íslensku atvinnulífi. Fjölmörg fyrirtæki eru í rannsóknasamstarfi við vísindamenn Háskólans, auk þess sem Háskólinn á virkt samstarf við aðra íslenska háskóla og allar helstu rannsóknastofnanir landsins. Þannig hefur öflugt og náið samstarf við Landspítala – háskólasjúkrahús skipt sköpum fyrir framgang vísindarannsókna á Íslandi, veitt nemendum í heilbrigðisvísindum og á öðrum fræðasviðum tækifæri til starfsþjálfunar og leitt til betri þjónustu við sjúklinga. Í tengslum við Háskólann eru rekin nokkur sprotafyrirtæki, t.d. á sviði lyfjaiðnaðar og verkfræði, og starfsmenn Háskólans fá á hverju ári samþykkt fimm til sjö einkaleyfi. Sértekjur eru um 35% af heildartekjum skólans sem er hátt hlutfall samanborið við aðra evrópska háskóla.

Háskóli Íslands gegnir lykilhlutverki í íslensku samfélagi. Það er skylda hans að ávaxta íslenskan menningararf og stunda öflugar rannsóknir á íslenskri tungu, menningu og samfélagi. Háskólanum ber því að leggja rækt við fræðigreinar og rannsóknir sem varða Ísland og Íslendinga sérstaklega.

Með metnaðarfullu starfi sínu hefur Háskóli Íslands stuðlað að velferð og hagsæld íslensku þjóðarinnar. Um leið hefur jarðvegurinn verið búinn undir þann öra vöxt þekkingar sem samfélagið kallar á. Háskóli Íslands getur því óhikað sett sér það markmið að komast í fremstu röð háskóla.

Sáttmáli Háskóla Íslands við samfélagið

Íslenskt samfélag hefur fóstrað Háskóla Íslands og treyst honum fyrir veigamiklu hlutverki. Brýn þörf samfélagsins fyrir öra uppbyggingu þekkingar og viljinn til að þjóna samfélaginu knýr okkur til verka og til að setja háleit markmið í starfinu. Við viljum að starf skólans, gæði, afköst og fjármögnun verði miðuð við valda erlenda háskóla. Um þetta viljum við ná sátt við íslenskt samfélag. Markmiðið er að skólinn skili ávallt afbragðsverki, fjárhagur hans verði traustur, en jafnframt verði alltaf lögð áhersla á hagkvæmni í rekstrinum.

Við viljum skapa sátt um að byggja upp af miklum krafti nútímalegan, lýðræðislegan og alþjóðlegan háskóla sem nýtur stuðnings og fjárveitinga í samræmi við erlenda viðmiðunarháskóla, en stefnum að því að vera ávallt skilvirkasti skólinn í þessum hópi.

Við viljum bjóða nemendum okkar fyrsta flokks kennslu og tryggja að hlutfall fastra kennara og nemenda verði sambærilegt við viðmiðunarháskólana.

Við viljum bæta aðbúnað til rannsókna og kennslu á öllum okkar sviðum til að standast kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra rannsóknaháskóla.

Við viljum byggja upp einfalt og öflugt stjórnkerfi sem þjónar vel þörfum rannsókna og kennslustarfs við Háskólann.

Framtíðarsýn

Til að þjóna sem best íslensku samfélagi hefur Háskóli Íslands sett sér það langtímamarkmið að vera meðal 100 bestu háskóla í heimi.

Vegferð okkar að þessu marki mun auðga og styrkja Háskólann og hvetja nemendur, kennara og starfsfólk til dáða.Í Háskóla Íslands hljóta nemendur framúrskarandi háskólamenntun og öðlast víðtæka þjálfun í gagnrýnni hugsun og sjálfstæðum vinnubrögðum. Þeir verða forystumenn á fjölmörgum sviðum samfélagsins og leiðtogar í þekkingarsamfélagi framtíðarinnar.
Kennarar Háskólans geta sér gott orð á alþjóðavettvangi fyrir öflugt vísinda- og fræðastarf og laða til sín framúrskarandi íslenska og erlenda háskólanema. Háskólinn á samstarf um rannsóknir og kennslu við háskóla og háskóladeildir í fremstu röð í heiminum. Skólinn verður driffjöður framþróunar í íslensku atvinnu- og þjóðlífi og nýtur trausts og virðingar innan lands og utan.

Aðstæður til rannsókna, kennslu og samskipta á háskólalóðinni munu gjörbreytast á næstu árum. Háskólatorg bætir þjónustu við kennara og nemendur og eflir samskipti innan Háskólans. Með Vísindagörðum verða nýsköpunar- og hátæknifyrirtæki og rannsóknastofnanir mikilvægur hluti af rannsókna- og kennslustarfi Háskólans, sérstaklega í verk- og raunvísindum. Á sama hátt mun hús íslenskra fræða og nýtt húsnæði fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum bæta aðstæður til rannsókna á þeim fræðasviðum. Nýtt húsnæði fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús, heilbrigðisvísindadeildir Háskólans og Lífvísindasetur í Vatnsmýrinni mun efla verulega þverfræðilegar rannsóknir í heilbrigðisvísindum, skapa ný tækifæri í námsframboði og stuðla að tengslum við atvinnulíf.

Til að þjóna íslensku samfélagi leggur Háskólinn áherslu á að eiga gott samstarf við stjórnvöld, grunn- og framhaldsskóla, menningarstofnanir, aðra innlenda háskóla, rannsóknastofnanir og íslenskt atvinnulíf. Það gerir okkur kleift að ná markmiði okkar um að skipa skólanum í raðir 100 bestu háskóla heims.

Samanburðarháskólarnir

Í viðleitni til að ná afburðaárangri vill Háskóli Íslands bera sig saman við nokkra háskóla bæði austan hafs og vestan.
Þeir eru:

Háskólinn í Kaupmannahöfn (Danmörku)
Háskólinn í Helsinki (Finnlandi)
Háskólinn í Lundi (Svíþjóð)
Háskólinn í Uppsölum (Svíþjóð)
Háskólinn í Tromsø (Noregi)
Háskólinn í Bergen (Noregi)
Háskólinn í Aberdeen (Skotlandi)
Boston University (Bandaríkjunum)

Annars vegar eru valdir nokkrir háskólar sem Háskóli Íslands var borinn saman við í úttekt Ríkisendurskoðunar 2004 og eru sambærilegir að rekstrarformi, stærð eða námsframboði. Hins vegar eru valdir háskólar á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum sem taldir eru meðal 100 bestu háskóla heims. Við slíka röðun eru mikilvægustu mælikvarðarnir birtingar á rannsóknarniðurstöðum í viðurkenndum alþjóðlegum ISI-tímaritum, fjöldi greina í tímaritunum Nature og Science, vísindaverðlaun til kennara og nemenda, áhrif af rannsóknarniðurstöðum vísindamanna, fjöldi erlendra nemenda, fjöldi erlendra kennara og mat virtra fræðimanna á háskólunum. Enn fremur er tekið mið af þáttum á borð við fjölda nemenda á hvern kennara og árangri nemenda eftir brautskráningu.

Grunngildin

Akademískt frelsi
Í Háskóla Íslands ríkir akademískt frelsi sem stuðlar að gagnrýnni og frjórri hugsun, áræðni og víðsýni. Viðurkennd gildi vísindasiðferðis eru ávallt í heiðri höfð.

Sjálfstæði og ábyrgð
Íslenskt samfélag felur Háskóla Íslands veigamikið hlutverk og fjármuni til að sinna því. Háskólinn er sjálfstæður og axlar ábyrgð á því að fara vel með þetta fé í þágu samfélagsins og skila hagkvæmu og árangursríku rannsókna- og kennslustarfi.

Fjölbreytni
Við Háskóla Íslands er boðið nám og stundaðar rannsóknir á öllum helstu sviðum vísinda og fræða. Áherslan á fjölbreytni samræmist vel hugsjóninni um að ná afburðaárangri á tilteknum sviðum.

Jafnrétti og lýðræði
Háskóli Íslands leggur áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og að jafnréttis sé gætt á öllum sviðum starfseminnar. Háskólinn ætlar ávallt að vera í fararbroddi í jafnréttismálum.

Heilindi og virðing
Í öllu starfi Háskóla Íslands er áhersla lögð á heiðarleg vinnubrögð. Samskipti einkennast af gagnkvæmri virðingu og trausti.

Hagsæld og velferð
Háskóla Íslands er kappsmál að stuðla að framförum og fögru mannlífi í íslensku samfélagi.

Markmið og aðgerðir 2006 - 2011

Til að vinna að því langtímamarkmiði að verða meðal 100 bestu háskóla heims hefur Háskóli Íslands sett sér stefnu fyrir tímabilið 2006-2011. Hún felur í sér að stórefla doktorsnám við skólann, fjölga birtingum greina í virtum alþjóðlegum fræðiritum, laða að hæfustu nemendur og kennara, efla samstarf við virta erlenda háskóla, treysta tengslin við íslenskt atvinnulíf, styrkja stjórnkerfi skólans og bæta stoðþjónustu. Stefnan miðar að því að ná þremur aðalmarkmiðum ásamt tilheyrandi undirmarkmiðum. Stefnan felur jafnframt í sér aðgerðaáætlun.

Aðalmarkmið

1 FRAMÚRSKARANDI RANNSÓKNIR

Háskóli Íslands ætlar að efla hágæðarannsóknir sem standast alþjóðleg viðmið á fjölbreyttum sviðum vísinda og fræða. Til þess þarf að stórefla doktorsnám og auka samstarf við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

2 FRAMÚRSKARANDI KENNSLA

Háskóli Íslands þjónar samfélaginu og þörfum þess fyrir menntun á heimsmælikvarða með því að veita nemendum framúrskarandi kennslu í nánum tengslum við rannsóknastarf skólans.

3 FRAMÚRSKARANDI STJÓRNUN OG STOÐÞJÓNUSTA

Háskóli Íslands ætlar að styðja vel við rannsóknir og kennslu með skilvirku stjórnkerfi, góðri stoðþjónustu og öflugu gæðakerfi.

1 FRAMÚRSKARANDI RANNSÓKNIR

Háskóli Íslands ætlar að efla hágæðarannsóknir sem standast alþjóðleg viðmið á fjölbreyttum sviðum vísinda og fræða. Til þess þarf að stórefla doktorsnám og auka samstarf við aðra háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

Stórefling doktorsnáms er forsenda þess að Háskóli Íslands geti skipað sér í röð fremstu háskóla heims. Doktorsnám lýtur ströngum gæðakröfum og til að standast þær þarf háskóli að hafa á að skipa afburðahæfum leiðbeinendum. Þegar saman koma metnaðarfullir doktorsnemar og hæfir leiðbeinendur verður til kröftugt vísindastarf. Einungis með öflugu doktorsnámi standast háskólar alþjóðlegan samanburð og samkeppni sem ríkir um bestu innlendu og erlendu doktorsnemana og hæfustu kennarana. Rannsóknavirkni eykst með þróttmiklu doktorsnámi sem leiðir til betri árangurs í samkeppni um alþjóðlegt rannsóknarfé. Með eflingu doktorsnáms opnast nýir möguleikar á skipulegu samstarfi við innlenda og erlenda háskóla. Uppbygging doktorsnáms felur í sér að stórbæta þarf aðstöðu og aðbúnað til rannsókna við Háskóla Íslands á fjölmörgum sviðum.

Í þessu skyni mun Háskóli Íslands:

Fimmfalda fjölda brautskráðra doktora

Innrituðum doktorsnemum fjölgi úr 190 í 350 til ársbyrjunar 2009. Deildir setji sér fyrir árslok 2006 markmið og áætlun um fjölgun doktorsnema á völdum sviðum, sem kynnt verða erlendis.

Erlendir doktorsnemar verði 30% af heildarfjölda doktorsnema árið 2011. Í því augnamiði verði kynningarefni á ensku bætt, háskólavefurinn gerður alþjóðlegri og námsframboð Háskóla Íslands markvisst kynnt á erlendum vettvangi.

Miðað verði við að 10% doktorsnema við Háskóla Íslands stundi nám á grundvelli samninga um sameiginlegar námsgráður (joint degrees) með erlendum skólum árið 2011.

Árið 2011 brautskráist a.m.k. 65 doktorar.

Styrkjakerfi fyrir doktorsnám verði stóreflt í áföngum fyrir árslok 2011. Rannsóknasjóður Háskólans verði tvöfaldaður á tímabilinu uns árlegt ráðstöfunarfé hans nemur 300 m.kr. og a.m.k. helmingi þeirrar fjárhæðar verði varið í þágu doktorsnáms. Enn fremur geti deildir ráðið doktorsnema í aðstoðarkennarastörf.

Doktorsnemum verði gert kleift að helga sig náminu og ljúka því á tilsettum tíma. Aðhald með námsframvindu verði aukið.

Miðstöð framhaldsnáms verði stofnuð fyrir árslok 2006 og hafi m.a. umsjón með gæðum doktorsnámsins.

Auka rannsóknavirkni og gæði rannsókna – fjölga birtingum greina í virtum alþjóðlegum ritrýndum tímaritum

Birtingum í virtum alþjóðlegum ritrýndum ISI-tímaritum fjölgi um 100% fyrir árslok 2011. Í því skyni verði matskerfi rannsókna endurskoðað þannig að slíkar greinar fái aukið vægi. Umbunað verði sérstaklega fyrir greinar í fremstu tímaritum heims á hverju fræðasviði, svo sem Nature og Science. Þá verði frekari umbun veitt fyrir bækur sem gefnar eru út hjá virtustu alþjóðlegu forlögunum. Breytingarnar komi til framkvæmda árið 2007. Reglur um sérstakt mat og endurmat á ritverkum verði áfram í gildi.

Við mat á ritverkum verði lögð áhersla á að Háskóli Íslands gegnir forystuhlutverki í rannsóknum á íslenskri menningu og þjóðfélagi og því er hvatt til birtinga í virtum ritrýndum íslenskum tímaritum og bókum.

Skilgreint verði starf fyrir prófessor á heimsmælikvarða (highly cited researcher). Ráðið verði í a.m.k. eitt slíkt starf fyrir árið 2011.

Fjöldi nýdoktora tvöfaldist fyrir árið 2011. Aðstaða þeirra verði bætt og framlag Háskólans til nýdoktorastyrkja hækkað í áföngum.

Heimild til rannsóknamisseris verði háð rannsóknavirkni. Reglur þar um verði settar fyrir lok árs 2006.

Auka skipulegt samstarf við erlenda háskóla og háskóladeildir í fremstu röð í heiminum.

Árið 2011 verði Háskóli Íslands í virku rannsóknasamstarfi við a.m.k. 8 af 20 fremstu háskólum og háskóladeildum í heiminum.

Hvatt verði til samvinnu við virta erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Slík samvinna fái aukið vægi við úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskólans frá og með árinu 2007.

Upplýsingum um samstarf starfsmanna Háskóla Íslands við erlenda háskóla og háskóladeildir verði safnað með reglubundnum hætti frá og með árinu 2007.

Auka sókn í samkeppnissjóði rannsókna

Tekjur úr innlendum, norrænum, evrópskum (m.a. rammaáætlunum ESB) og bandarískum samkeppnissjóðum aukist um 80% fyrir árið 2011.

Hvatt verði til sóknar í samkeppnissjóði með því að taka tillit til veittra styrkja í vinnumatskerfi Háskólans. Breytingin taki gildi árið 2007.

Rannsóknasjóður Háskólans veiti frá og með árinu 2007 styrki til að undirbúa umsóknir til alþjóðlegra samkeppnissjóða.

Stoðþjónusta við gerð umsókna til samkeppnissjóða verði efld til muna. Tillögur liggi fyrir við árslok 2006.

Stórefla aðstöðu til rannsókna og kennslu og auka aðgang að rafrænum tímaritum og gagnagrunnum

Heildarhúsnæði Háskólans verði aukið til að bæta úr brýnni húsnæðisþörf og til að mæta fyrirsjáanlegri fjölgun nemenda og kennara. Á árinu 2006 verði lokið við að greina húsnæðisþarfir heilbrigðisvísindadeilda og unnið að gerð framkvæmda- og fjármögnunaráætlunar vegna framtíðarhúsnæðis þessara deilda í tengslum við byggingu nýs háskólasjúkrahúss. Fyrir mitt ár 2007 verði lokið við að greina húsnæðisþarfir hugvísinda-, raunvísinda- og verkfræðideilda; framkvæmda- og fjármögnunaráætlun verði tilbúin eigi síðar en 1. júlí 2008.

Áfram verði unnið að undirbúningi og fjármögnun húsnæðis fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Fjármagn til tækjakaupa aukist í áföngum og þrefaldist á næstu fimm árum.

Sérhæfðu aðstoðarfólki við rannsóknir verði fjölgað um 75% fyrir árið 2011.

Fjármagn til kaupa á gagnagrunnum og rafrænum tímaritum og bókum verði aukið um 100% frá því sem nú er til ársloka 2008.

Auka þverfræðilegar rannsóknir

Fjölbreytileiki Háskóla Íslands verði nýttur til að efla þverfræðilegar rannsóknir með það að markmiði að skapa nýja þekkingu og fræðasvið.

Við endurskoðun vinnumatskerfis Háskólans fyrir árslok 2007 fái fjölhöfundagreinar meira vægi og aðalhöfundar fleiri rannsóknastig en meðhöfundar.

Við úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskólans verði sérstaklega tekið tillit til þverfræðilegra rannsókna.

Efla nýsköpun og tengsl við rannsóknastofnanir, atvinnulíf og landsbyggð

Starfsemi Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni hefjist fyrir lok ársins 2007. Vísindagarðar og Lífvísindasetur við Landspítala – háskólasjúkrahús verði frjór vettvangur samstarfs Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja, nýsköpunar- og hátæknifyrirtækja, rannsóknastofnana og fleiri skyldra aðila.

Háskólinn byggi upp samstarfsnet um rannsóknir og nýsköpun við lykilaðila í atvinnulífinu.

Hagnýting rannsóknarniðurstaðna verði aukin, m.a. með því að stofnsetja fleiri sprotafyrirtæki í tengslum við Háskólann og með því að fjölga einkaleyfisumsóknum.

Leitað verði í auknum mæli til fyrirtækja og einstaklinga um samstarf og stuðning í tengslum við meistara- og doktorsnám.
Störfum kostuðum af utanaðkomandi aðilum verði fjölgað um 50% fyrir árið 2011.

Vísindanefnd Háskólans geri fyrir árslok 2007 tillögu um hvernig rannsóknir og ráðgjöf í þágu atvinnu- og þjóðlífs skulu metnar í vinnumatskerfi skólans.

Deildir Háskóla Íslands, einkum hugvísindadeild, eigi náið samstarf við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þannig verði eðlilegt samstarf stofnunarinnar og Háskólans tryggt með tilliti til kennslu og rannsókna.

Samstarf við innlenda háskóla og rannsóknastofnanir verði aukið til að stuðla að framúrskarandi árangri íslenskra vísindamanna á tilteknum sviðum.

Störfum í fræðasetrum Háskólans á landsbyggðinni verði fjölgað um a.m.k. 100% fyrir árið 2011.

2 FRAMÚRSKARANDI KENNSLA

Háskóli Íslands þjónar samfélaginu og þörfum þess fyrir menntun á heimsmælikvarða með því að veita nemendum framúrskarandi kennslu í nánum tengslum við rannsóknarstarf skólans.

Framúrskarandi kennsla er grundvallarþáttur í góðu háskólastarfi. Til að ná markmiði sínu um menntun á heimsmælikvarða þarf Háskólinn kennara og nemendur í fremstu röð, hvaðanæva að úr heiminum, og aðstöðu sem laðar þá að skólanum og skapar bestu skilyrði til vinnu. Háskólinn gerir miklar kröfur um árangur og gæði í námi og kennslu.

Í þessu skyni mun Háskóli Íslands:

Laða að hæfustu nemendurna og skapa fyrirmyndarnámsumhverfi

Í boði verði styrkir fyrir afburðanemendur í grunn- og framhaldsnámi. Meðal annars verði leitað til einstaklinga og atvinnulífs um fjármögnun þessara styrkja. Háskólinn kynni sérstaklega nemendur sem ná slíkum árangri.

Í því skyni að skapa fyrirmyndarnámsumhverfi verði lögð áhersla á að bæta kennslustofur og tæknibúnað, lesaðstöðu, félagsaðstöðu nemenda og aðgang að rafrænum tímaritum og gagnasöfnum.

Uppbyggingu stúdentagarða verði hraðað og sérstaklega hugað að húsnæðismálum erlendra nema við Háskólann.

Háskóli Íslands móti almenna stefnu um inntöku nemenda og skilyrði um undirbúning fyrir mitt ár 2007. Stefnan taki m.a. mið af því að fjármunir og mannauður, bæði stúdenta og kennara, nýtist sem best. Þá geti deildir sett nánari skilyrði um inntöku nemenda.

Ávallt liggi fyrir ítarlegar og aðgengilegar upplýsingar um námsframboð í Háskóla Íslands og tryggt að nemendum verði veitt ráðgjöf um markvisst námsval.

Deildir skipi umsjónarmenn úr hópi kennara, sem veiti nemendum einstaklingsmiðaða ráðgjöf í upphafi náms og fylgist með námsframvindu þeirra.

Hlutfall fastra kennara á nemendur hækki úr 1:21 í 1:17 til ársins 2011. Miðað við núverandi fjölda nemenda mun kennurum fjölga um a.m.k. 100 á tímabilinu. Sérstakt átak verði í deildum þar sem þörfin er brýnust.

Lögð verði aukin áhersla á kennsluhætti sem efla gæði náms og taka mið af þörfum nemenda og sérstöðu námsgreina.

Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins verði efld og deildir hugi sérstaklega að móttöku og stuðningi við erlenda stúdenta.

Ráða hæfustu kennarana

Háskóli Íslands bjóði gott starfsumhverfi, m.a. með því að efla stoðþjónustu við kennara.

Auglýsingar um kennarastörf verði birtar á alþjóðlegum vettvangi.

Leitað verði markvisst að framúrskarandi og efnilegu akademísku starfsfólki í því skyni að efla kennslu og rannsóknir við Háskólann.

Ráðningarferli akademískra starfsmanna verði einfaldað og nýir kennarar að jafnaði ráðnir tímabundið. Við tímabundna ráðningu kennara verði m.a. tekið tillit til aldurs, þannig að efnilegir ungir vísindamenn sem eru að hefja feril sinn eigi sanngjarna möguleika á að fá starf við Háskóla Íslands. Kröfur við ráðningu og framgang kennara verði auknar og að jafnaði gerð krafa um doktorspróf. Við ráðningar verði lögð áhersla á að tryggja skólanum nýjustu þekkingu á hverju fræðasviði. Rektor feli starfshópi að gera tillögur að reglum um nýráðningar og dómnefndir fyrir 1. september 2006. Nýjar reglur komi til framkvæmda fyrir 1. janúar 2007.

Einstaklingsbundinn sveigjanleiki í starfsskyldum akademískra starfsmanna, á milli rannsókna, kennslu og stjórnunar, verði aukinn og endurskoðaður reglulega í því skyni að virkja sem best mannauð Háskólans. Þessi áform komi til framkvæmda 1. september 2006.

Frá hausti 2006 verði nýjum kennurum gert skylt að sækja námskeið í kennsluaðferðum og tækni á vegum Kennslumiðstöðvar Háskólans.

Nýjum kennurum verði auðveldað að byggja upp rannsóknaraðstöðu.

Lögð verði áhersla á að bæta kjör stundakennara.

Háskóli Íslands bjóði launa- og starfskjör sem laða að hæfustu kennarana.

Efla stuðnings- og gæðakerfi kennslu

Háskólinn þrói gæðamatskerfi fyrir lok árs 2007. Það feli í sér fjölbreyttar leiðir til að meta gæði náms og kennslu.

Fyrir lok árs 2008 verði innleitt nýtt vinnumatskerfi kennslu sem hvetji enn frekar til góðra kennsluhátta og þróunarverkefna.

Deildir setji sér skýr kennslumarkmið fyrir mitt ár 2007. Þau kveði m.a. á um móttöku nýrra kennara og nemenda, þjálfun og endurmenntun kennara, þróun kennsluhátta og námsmats, stoðþjónustu, stærð námshópa og skilgreiningu á hlutverki framhaldsnema og stundakennara við kennslu. Deildir leggi reglulega mat á hvernig þeim tekst að ná kennslumarkmiðum sínum.

Stoðþjónusta Kennslumiðstöðvar Háskólans við deildir verði endurskipulögð og efld fyrir lok árs 2007 með hliðsjón af þörfum og markmiðum deilda.

Framkvæmd og eftirfylgni kennslukannana verði endurskoðuð fyrir lok ársins 2006. Þátttaka nemenda verði aukin í a.m.k. 80% og niðurstöður nýttar til að auka gæði kennslunnar.

Vinnulag við prófahald og prófaskil verði endurskoðað og einfaldað fyrir lok árs 2006.

Endurmeta og þróa námsframboð

Námsleiðir Háskólans verði endurskoðaðar reglulega. Við þá endurskoðun verði tekið mið af síbreytilegum þörfum samfélagsins og alþjóðlegri þróun og lögð áhersla á að mannauður og fjármagn skólans nýtist sem best.

Nýjar námsleiðir verði þróaðar. Fjölbreytni Háskólans verði nýtt til að auka framboð á þverfræðilegu námi.

Framboð námskeiða í framhaldsnámi verði aukið, m.a. með auknu samstarfi við erlenda háskóla.

Kennarar og sérfræðingar Háskólans verði hvattir til að skipuleggja og standa fyrir alþjóðlegum sumarnámskeiðum, m.a. til að laða að erlenda framhaldsnemendur.

Lögð verði áhersla á að fjölga skiptikennurum og skiptistúdentum í því skyni að gera námsframboð fjölbreyttara og efla alþjóðleg tengsl.

Erlendir nemendur og starfsmenn verði hvattir til að sækja námskeið í íslensku. Hugað verði að framboði námskeiða í íslensku fyrir þennan hóp.

Deildir leitist við að fjölga tækifærum nemenda til starfsnáms á vettvangi.

Efla upplýsingatækni

Háskólinn vill vera í fremstu röð í notkun upplýsingatækni í kennslu. Í því augnamiði verði þróun upplýsinga- og námsumsjónarkerfis (Uglu) haldið áfram.

Háskólinn móti sér skýra stefnu um fjarkennslu fyrir árslok 2007. Fjarkennsla verði efld í völdum greinum.

Upplýsingalæsi verði tryggt með því að efla kennslu í heimildaleit, m.a. í samvinnu við Landsbókasafn – Háskólabókasafn.

Aðgengi að rafrænum tímaritum og gagnagrunnum verði bætt svo um munar.

Auka ábyrgð nemenda og draga úr brottfalli

Kröfur um námsframvindu nemenda í grunn- og framhaldsnámi verði auknar.

Nemendum sem ekki geta verið í fullu námi verði gert kleift að skrá sig í hlutanám frá og með hausti 2007. Kröfur um námsframvindu taki mið af skráningu þeirra.

Gerð verði ítarleg úttekt á brottfalli nemenda, orsakir þess greindar og settar fram tillögur til úrbóta. Niðurstöður og aðgerðaáætlun liggi fyrir í árslok 2006. Dregið hafi úr brottfalli nemenda á fyrsta námsári um 50% árið 2011.

Nemendaskrá láti deildum reglulega í té upplýsingar um brottfall og námsframvindu frá og með hausti 2006.

Efla endurmenntun og almenningsfræðslu

Háskólinn mæti síaukinni eftirspurn fagfólks eftir endurmenntun með því að efla Endurmenntun Háskóla Íslands og fela deildum Háskólans ríkara hlutverk á þessu sviði. Samstarf og verkaskipting milli Endurmenntunar og deilda verði endurskoðuð fyrir árslok 2007.
Almenningsfræðsla verði efld, m.a. á vettvangi Endurmenntunar og fræðasetra Háskólans á landsbyggðinni.

3 FRAMÚRSKARANDI STJÓRNUN OG STOÐÞJÓNUSTA

Háskóli Íslands ætlar að styðja vel við rannsóknir og kennslu með skilvirku stjórnkerfi, góðri stoðþjónustu og öflugu gæðakerfi.

Nauðsynlegt er að efla og styrkja stjórnkerfi Háskóla Íslands og móta það þannig á hverjum tíma að skólinn nái markmiðum sínum, standi undir væntingum sem til hans eru gerðar og standi sterkar að vígi í samkeppni við aðra alþjóðlega háskóla. Endurskipuleggja þarf stjórnkerfi hans, skilgreina betur völd og ábyrgð stjórnenda og gera ákvarðanatöku hraðari og áreiðanlegri. Jafnframt er nauðsynlegt að efla gæðamenningu innan skólans, styrkja tengslin við íslenskt samfélag og stórauka sjálfsaflafé skólans.

Háskóla Íslands verði skipt í nokkra skóla og stjórnkerfi hans styrkt

Skora- og deildaskipting Háskóla Íslands verði endurskoðuð í því skyni að efla starfseiningar hans. Skipuð verði nefnd sem geri tillögu að skiptingu Háskóla Íslands í skóla sem hver um sig starfi í aðgreindum deildum. Nefndin vinni í nánu samstarfi við deildarforseta. Hún skili tillögum og kynni þær fyrir mitt ár 2007.

Viðræðum um hugsanlega sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands verði haldið áfram. Komi til sameiningar verði hún undirbúin vandlega, m.a. í tengslum við skiptingu hinnar nýju stofnunar í skóla. Ef af sameiningu verður skal hún komin til framkvæmda 1. júlí 2008.

Hlutverk og framkvæmd háskólafundar (háskólaþings) verði endurskoðuð fyrir árslok 2007 í því augnamiði að styrkja hlutverk fundarins.

Stoðþjónusta verði efld, m.a. til að gera kennurum betur kleift að helga sig kennslu og rannsóknum.

Gæðakerfi og gæðamenning innan Háskólans verði efld

Unnið verði markvisst að því að efla gæðamenningu Háskólans. Gæðanefnd háskólaráðs verði skipuð fyrir mitt ár 2006. Hún hafi m.a. það hlutverk að útfæra og þróa gæðakerfi Háskólans með hliðsjón af alþjóðlegum viðmiðum og stefnumörkun, svo sem á vettvangi EUA og í tengslum við Bologna-ferlið.

Fram fari reglubundið innra og ytra gæðamat á Háskólanum í heild og einstökum deildum hans. Slíkt gæðaeftirlit verði ávallt í höndum faglegs aðila eða sjálfstæðrar matsstofnunar sem styðst við viðurkennd alþjóðleg viðmið og kröfur.

Háskóli Íslands beiti sér fyrir því að háskólar á Íslandi stofni sameiginlegan vettvang fyrir þróun og eflingu gæðamála í háskólastarfi. Tillaga verði lögð fyrir samstarfsnefnd háskólastigsins haustið 2007.

Komið verði á fót formlegum vettvangi til að taka við ábendingum og tillögum um það sem betur má fara í stjórnkerfi og stoðþjónustu Háskólans.

Jafnréttisnefnd láti meta stöðu jafnréttismála á tveggja ára fresti frá og með árinu 2006.

Gerðar verði reglulega kannanir á starfsánægju og skyldum þáttum frá og með árinu 2006.

Háskóli Íslands styrki tengsl sín við íslenskt atvinnulíf, mennta- og menningarstofnanir, stjórnvöld og hollvini skólans og taki virkan þátt í opinberri umræðu

Markaðs- og samskiptastarf Háskólans verði samhæft og stóreflt.

Tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf verði styrkt með fjölgun utanaðkomandi fulltrúa í háskólaráði. Háskólinn velji þessa fulltrúa á grundvelli faglegrar hæfni.

Tengsl Háskólans við framhaldsskólana í landinu verði styrkt. Háskólinn taki virkan þátt í umræðu um hlutverk framhaldsskólans í menntakerfinu. Kynning á námi við Háskóla Íslands í framhaldsskólum verði aukin til þess að nemendur geti undirbúið háskólanám sitt sem best.

Tengsl Háskólans við grunnskóla landsins verði styrkt. Háskólinn taki virkan þátt í umræðu um hlutverk grunnskólans í menntakerfinu.

Háskólinn leggi sig fram um að veita ungu fólki fræðslu (m.a. með Vísindavef og Háskóla unga fólksins) og glæða áhuga þess á vísindum.

Opinber umræða og umfjöllun um Háskóla Íslands endurspegli fjölbreytta starfsemi hans, virk tengsl við atvinnulíf og framlag til framþróunar og hagsældar.

Háskólinn rækti tengsl við fyrrverandi nemendur og byggi markvisst upp hollvinasamtök sín.

Heimasíða Háskólans verði virkur alþjóðlegur upplýsingamiðill.

Fjárhagur Háskóla Íslands endurspegli hlutverk skólans, markmið og árangur

Unnið verði að því að fá ríkisframlag hækkað í áföngum uns það verði sambærilegt við framlag til evrópskra viðmiðunarháskóla og að rannsóknarfjárveitingin byggist á árangri í rannsóknum og rannsóknatengdu framhaldsnámi.

Háskóli Íslands er ríkisháskóli sem ekki innheimtir skólagjöld. Afstaða til skólagjalda mun skýrast við endurskoðun laga um ríkisháskóla á haustþingi 2007 eða vorþingi 2008.

Skipulögð og framkvæmd verði fjáröflunarherferð Háskóla Íslands sem miðar að því að stórefla sókn í samkeppnissjóði og auka aðrar sértekjur skólans til muna á tímabilinu 2006-2011.

Háskóli Íslands leiti heimilda til að afla fjár á fjölbreyttari hátt og skjóti þannig styrkari stoðum undir rekstur skólans. Unnið verði að því að Háskólinn fái ótvíræða lagaheimild til að innheimta gjöld fyrir sérþjónustu, svo sem inntöku- og upptökupróf. Deildum verði gert kleift að njóta tekna umfram beinan kostnað af þjónusturannsóknum, endurmenntun og almenningsfræðslu án þess að til skerðingar komi á öðrum tekjustofnum.

Samið verði við stjórnvöld um lækkun einkaleyfisgjalds Happdrættis Háskólans.

Háskólinn taki upp, í samstarfi við aðra innlenda háskóla, viðræður við stjórnvöld um skattaívilnanir til fyrirtækja vegna gjafa og styrkja til íslenskra háskóla til að hvetja atvinnulífið til að taka aukinn þátt í uppbyggingu þeirra.

Framkvæmd og eftirfylgni

Rektor ber ásamt háskólaráði ábyrgð á framkvæmd stefnunnar og gerir háskólafundi reglulega grein fyrir gangi mála.

Deildarforsetar og aðrir stjórnendur bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar hver á sínum vettvangi. Rektor heldur reglulega fundi með þeim til að fara yfir stöðu mála.

Stefna skólans er nánar útfærð í sérstakri framkvæmdaáætlun sem er uppfærð árlega og samhæfð annarri áætlanagerð skólans. Rektor skipar nefnd til að fylgja eftir framkvæmd stefnunnar og endurskoða einstök markmið eftir því sem ástæða er til. Nefndin vinnur náið með rektor, gerir athugasemdir við framgang einstakra stefnumála og leggur fram tillögur um næstu skref. Viðkomandi einingum sameiginlegrar stjórnsýslu verði falið að afla nauðsynlegra upplýsinga um þá mælikvarða sem liggja til grundvallar aðgerðum og einstökum markmiðum.

Rektor fer reglubundið yfir markmiðasetningu skólans með deildarforsetum og öðrum stjórnendum. Tillögur um uppfærslu markmiða og breytingar eru lagðar fyrir háskólafund og staðfestar af háskólaráði. Framvinda markmiða og aðgerða verður kynnt reglulega.

Staðfest í háskólaráði 11. maí 2006

Stefna Háskóla Íslands 2006-2011 á pdf formi


Stefna félagsvísindadeildar


Stefna guðfræðideildar

Stefna hjúkrunarfræðideildar

Stefna lagadeildar

Stefna lyfjafræðideildar

Stefna læknadeildar

Stefna raunvísindadeildar

Stefna tannlæknadeildar

Stefna verkfræðideildar

Stefna viðskipta- og hagfræðideildar

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is