Háskóli Íslands

Prófreglur

Prófreglur

Í prófum gilda ákveðnar reglur um samskipti, skilríki, hjálpargögn o.fl. Eftirfarandi texti er prentaður innan á titilsíður prófbóka, nemendum til ábendingar:

ATHUGIÐ!

 1. Á prófborði skulu ekki vera nein gögn önnur en prófgögn, skilríki og leyfileg hjálpargögn samkvæmt fyrirmælum hverju sinni.
 2. Hafi nemandi af misgáningi tekið með sér óleyfileg gögn ber honum strax að afhenda þau prófverði.
 3. Óheimilt er að fjarlægja nokkurn hluta prófgagna úr prófstofu. Þetta gildir um öll gögn, þ.m.t. rissblöð.
 4. Öll notkun samskiptatækja er óheimil á prófstað. Nemendum ber að slökkva á farsímum og geyma í yfirhöfn, tösku eða poka á geymslusvæði prófstofunnar. Að öðrum kosti ber að afhenda farsíma prófverði til geymslu.
 5. Pennaveski skal geyma á gólfinu, undir prófborði.
 6. Nemendur hafi jafnan gild skilríki með mynd aðgengileg fyrir prófverði. (Gengið verður um og mætingarlisti tekinn.)
 7. Nemendum er óheimilt að yfirgefa prófstofu fyrsta þriðjung próftíma.
 8. Samskipti við aðra prófmenn eða aðila utan prófstaðar eru óheimil á próftíma.
 9. Prófmenn eru vinsamlega beðnir um að gera prófvörðum viðvart verði þeir vitni að því að samnemendur þeirra brjóti þessar reglur.
 10. Óheimilt er að neyta tóbaks eða matar í prófstofum.
 11. Prófmenn yfirgefi prófstað strax að lokinni próftöku.
 12. Brot á þessum reglum varða vísun frá prófi eða úr námskeiði eftir atvikum, svo og viðurlögum skv. gildandi lögum og reglum fyrir Háskóla Íslands.

Frekari ákvæði um próf er að finna í reglum fyrir Háskóla Íslands. Þar er t.d. fjallað um framkvæmd prófa og prófreglur í 58. grein:

„Prófstjóri Háskólans annast undirbúning og stjórn prófa í samráði við stjórnsýslu fræðasviða og deildir.

Stúdentum, sem í prófi eru, er óheimilt að aðstoða aðra prófmenn við prófúrlausn eða leita aðstoðar annarra. Skrásettum stúdent, sem ekki er í prófi, er einnig óheimilt að veita slíka aðstoð. Prófmönnum er óheimilt að tala saman og þeir mega ekki hafa aðrar bækur, gögn eða tæki með sér en þau, sem kennari heimilar nema sérstaklega sé kveðið á um annað í reglum deilda. Sama gildir um aðra verkefnavinnu stúdenta nema kennari ákveði annað. Brot gegn ákvæðum þessum og öðrum prófreglum, sem háskólaráð setur, varða vísun úr prófi og eftir atvikum viðurlögum, samkvæmt 19. gr. laga um opinbera háskóla.

Skriflegar prófúrlausnir skulu merktar prófnúmerum og einkunnir birtar undir sömu auðkennum, en deild getur sett reglur um undanþágu frá þessu meginákvæði. Heimilt er einnig að birta einkunnir undir sérstökum nemendanúmerum sem nemendaskrá úthlutar hverjum stúdent.

Háskólaráð setur nánari reglur um prófvörslu og framkvæmd prófa.“

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl2.rhi.hi.is