Háskóli Íslands

Kennslumálanefnd

Fyrst skipuð 3. október 1985.

Kennslumálanefnd er sjö manna nefnd sem háskólaráð skipar til þriggja ára í senn. Í nefndinni eiga sæti aðstoðarrektor kennslu og þróunar, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, formenn kennslunefnda fræðasviðanna fimm og einn fulltrúi stúdenta, tilnefndur af Stúdentaráði.

Núverandi skipan:

 • Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, formaður.
 • Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild, formaður kennslunefndar Félagsvísindasviðs.
 • Björn Guðbjörnsson, prófessor í Læknadeild, formaður kennslunefndar Heilbrigðisvísindasviðs.
 • Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, formaður kennslunefndar Hugvísindasviðs.
 • Hróbjartur Árnason, lektor við Menntavísindasvið, formaður kennsluráðs Menntavísindasviðs.
 • Anna Helga Jónsdóttir, aðjunkt við Raunvísindadeild, formaður kennslunefndar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs.
 • Stefán Óli Jónsson, meistaranemi í Viðskiptafræðideild, fulltrúi stúdenta.

Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Hreinn Pálsson, prófstjóri, og Guðrún Geirsdóttir, deildarstjóri Kennslumiðstöðvar, starfa með nefndinni.

Hlutverk kennslumálanefndar er að vinna að þeim markmiðum stefnu Háskóla Íslands er lúta að námi og kennslu. Í því felst að stuðla að þróun kennslu og kennsluhátta við Háskóla Íslands og vinna á annan hátt að því að nemendur öðlist framúrskarandi menntun í nánum tengslum við rannsóknastarf skólans.

Einstök verkefni kennslumálanefndar eru samkvæmt erindisbréfi:

 1. að vera rektor, háskólaráði og háskólaþingi til ráðuneytis um hvaðeina er lýtur að kennslu, kennsluháttum, rannsóknatengdu framhaldsnámi og þróun og nýmælum á sviði náms og kennslu;
 2. að hafa með hendi samræmingu á kennslustefnu deilda eftir því sem við á í samráði við kennslunefndir fræðasviða;
 3. að stuðla að því, í samvinnu við kennslunefndir fræðasviða, að framkvæma markmið Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021 er lúta að námi og kennslu;
 4. að standa fyrir gæðamati á kennslu við Háskóla Íslands, m.a. með reglubundnum kennslukönnunum fyrir nemendur í grunnnámi annars vegar og framhaldsnámi hins vegar, og stuðla að því að matinu verði fylgt eftir og það nýtt í þágu bættrar kennslu;
 5. að tryggja að fræðasvið og deildir Háskólans skilgreini og uppfæri reglulega hæfniviðmið fyrir allar námsleiðir og námskeið, í samræmi við viðmið um æðra nám og prófgráður á Íslandi;
 6. að þróa aðgerðir til að nýta upplýsingar úr kennsluferilsskrám við mat á fastráðningum, við framgang og við umbun fyrir kennsluframlag. Stuðla skal að samræmingu kennsluferilsskráa milli fræðasviða;
 7. að stuðla að umræðum og málþingum innan Háskólans og utan um nám, kennslu og kennsluhætti, tengsl kennslu og rannsókna og annað það sem bætt getur þá menntun sem nemendur öðlast við Háskólann;
 8. að stýra Kennslumálasjóði Háskóla Íslands og annast úthlutanir úr honum, eftir því sem fjárráð leyfa;
 9. að tilnefna kennara vegna árlegrar viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í kennslu;
 10. að stuðla að samvinnu milli Háskóla Íslands og annarra íslenskra háskóla;
 11. að annast tengsl Háskóla Íslands við skóla á lægri skólastigum, m.a. með því að sjá til þess að fræðasvið og deildir skilgreini þær kröfur sem gera þarf til nemenda um þekkingu og færni við innritun og leitast á annan hátt við að tryggja að nemendur á lægri skólastigum fái nauðsynlegar upplýsingar og undirbúning fyrir háskólanám; 
 12. að sinna öðrum málum sem rektor, háskólaráð eða háskólaþing kunna að fela nefndinni.

Kennslumálanefnd hefur samstarf við aðrar starfsnefndir háskólaráðs, einkum gæðanefnd, kennslunefndir fræðasviða, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, kennslusvið, gæðastjóra, Kennslumiðstöð og Miðstöð framhaldsnáms eins og við á hverju sinni.

Nánari upplýsingar um kennslumálanefnd, kennslukönnun og kennslumálasjóð eru á innri vef Háskólans.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is