Háskóli Íslands

Gæðakerfi

Greinargerð

Háskóli Íslands hefur margvíslegar skyldur vegna gæða skv. lögum, reglum og samningum um fjármögnun kennslu og rannsókna.

Meðal þeirra má nefna:

1. Að setja markmið og þróa mælikvarða.
2. Að auka hæfi kennara á starfstíma þeirra.
3. Að halda námskeið í kennslutækni fyrir kennara.
4. Að láta fara fram kerfisbundið mat á störfum kennara, m.a. með kennslukönnunum sem fylgt er eftir með greinargerð eða sjálfsmati kennara og viðbrögðum stjórnunareiningar til þess að bæta kennslu.
5. Að meta virkni og árangur í rannsóknum.
6. Að annast sjálfsmat deilda vegna ytra mats, sbr. reglur nr. 331/1999.
7. Að þróa upplýsingakerfi og upplýsingagjöf sína með útgáfu ársskýrslu, rekstri heimasíðu með aðgengilegum upplýsingum um menntun, starfsferil og ritsmíðar allra fastra kennara og útgáfu upplýsinga um réttindi og skyldur nemenda.

Gæðakerfi Háskólans miðar að því að mæta væntingum góðra nemenda, starfsmanna, íslensks samfélags og hins alþjóðlega vísindasamfélags. Gæði snúa að kennslu, rannsóknum, fræðslu, þjónustu deilda, stofnana og sameiginlegrar stjórnsýslu við nemendur, starfsfólk og samstarfsaðila. Gæðakerfi á að tryggja gæði og stuðla að úrbótum.

Gæði eru nefnd víða í reglum Háskólans. Í Vísinda- og menntastefnu skólans er kveðið á um að Háskólinn skuli "þróa formlegt gæðakerfi þar sem skilgreindir eru þeir þættir sem koma til álita við gæðamat og mælikvarðar sem notaðir verða. Gæðamat skal vera skilvirkt og hnitmiðað en ekki of tímafrekt í framkvæmd. Ákveða skal fyrirfram hvernig niðurstöður matsins verða nýttar. Formlegt gæðakerfi skal m.a. taka til gæðamats á kennslu við framgang kennara og röðun þeirra til launa". Þetta er að mestu í samræmi við ákvæði í samningum Háskóla Íslands við menntamálaráðuneyti um fjármögnun kennslu og rannsókna.

Gæðakerfi sem hér er kynnt miðar að því að uppfylla ákvæði kennslusamnings og rannsóknasamnings. Stefnumótun Samtaka evrópskra háskóla (EUA) er jafnframt höfð til hliðsjónar eins og kostur er, sérstaklega við setningu markmiða. Mikilvægt er að grunnhugsun gæðakerfisins samræmist forsendum og lögmálum sem ráða virkni og árangri framsækinna háskóla. Hér er lagt til að í upphafi verði byrjað á því að skilgreina markmið sem fullnægja lágmarkskröfum EUA, sem síðar má víkka út með stöðugum umbótum eftir tilteknum leiðum eða aðgerðum til þess að standast samkeppni á innlendum og erlendum vettvangi. Gæðakerfi á að hvetja til nýsköpunar, bættrar frammistöðu og aukins sjálfstæðis starfsmanna, en einnig til hópvinnu þar sem áætlun, aðgerðir, eftirlit og viðbrögð mynda ferli stöðugra umbóta. Það er stefna Háskólans að hvetja til lærdóms alla ævi eins og birtist í öflugu rannsókna- starfi en einnig í starfi deilda og Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Þá hugsun þarf að fella betur inn í starfsemi Háskólans í heild.

Markmið gæðakerfis Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

að sjálfstæði Háskólans sé tryggt og að forsendur séu fyrir aðlögun skólans að síbreytilegum kröfum samfélagsins
að deildir sinni öflun, varðveislu og miðlun þekkingar, með kennslu, rannsóknum, fræðslu og þjónustu.
að kennsla og rannsóknir standist alþjóðlegar kröfur
að Háskólinn njóti trausts, prófgráður séu viðurkenndar og nemendur og kennarar séu eftirsóttir
að deildir móti sér stefnu um fjarkennslu
að deildir hafi gagnsæ inntökuskilyrði
að allt starfsfólk sé verkefnum sínum vaxið
að tryggja viðbrögð við tillögum og gagnrýni nemenda
að tryggja sveigjanlega sameiginlega stjórnsýslu og stjórnsýslu í deildum
að Háskólinn taki þátt í opinberri umræðu, hafi jákvæð áhrif á menningu og listir og sé gefandi og virkur þátttakandi í lýðræðislegu samfélagi
Framangreind markmið fullnægja kröfunni um setningu markmiða. Hvatt er til að deildir setji sér sérstök markmið til viðbótar almennum markmiðum Háskóla Íslands. 

Gæðakerfi Háskóla Íslands

Gert er ráð fyrir í upphafi að gæðakerfi Háskólans fullnægi lágmarkskröfum sem lög, reglur og samningar um fjármögnun kennslu og rannsókna gera. Síðar verður gæðastarfið þróað í þrepum. Gæðakerfi Háskóla Íslands tekur til eftirfarandi efnisflokka:

Almennt
Kennslu
Rannsókna
Nemenda
Kennslu- og vísindadeilda
Sameiginlegrar stjórnsýslu

Almennt

Vandað ráðningarferli, námskeið fyrir starfsmenn, sáttmálasjóðsstyrkir, rannsóknamisseri og rannsóknahvetjandi launakerfi stuðla að því að hæfi og reynsla starfsmanna aukist á starfstíma þeirra.

Deildarforsetar, forstöðumenn og framkvæmdastjórar eru gæðastjórar þeirra rekstrareininga sem þeir stýra.

Reglulegar úttektir erlendra aðila á skorum, deildum, stofnunum og stjórnsýslu Háskólans.

Kennsla

Nýir kennarar sæki námskeið í kennslutækni í upphafi starfsferils og eldri kennarar sæki slík námskeið eftir þörfum.

Kennslukannanir verði einfaldaðar og netvæddar. Kennarar fái athugasemdir nemenda og meðaltal deildar. Kennarar annist sjálfsmat og skor eða deild bregðist við. Notuð verði stöðluð námskeiðsskýrsla, þar sem fram koma upplýsingar um námskeið (fjöldi skráðra nemenda, fjöldi nemenda í prófi, fjöldi staðinna nemenda, upplýsingar um kennsluform, vægi prófa og meðaltal mats nemenda miðað við meðaltal deildar). Kennari bætir athugasemdum sínum við námskeiðsskýrsluna svo og skorarformaður eða deildarforseti.

Stefnunni um lærdóm alla ævi verður fylgt eftir með reglubundnum sérhæfðum námskeiðum fyrir brautskráða nemendur til þess að viðhalda fyrri prófgráðum.

Deild beri gagnvart sjúklingum ábyrgð á gæðum klínískrar vinnu nemenda.

Rannsóknir

Kennarar skili á hverju ári rannsóknaskýrslu. Deildarforseti fylgist með rannsóknavirkni með samtölum við kennara og sérfræðinga. Deildarforseti og framkvæmdastjóri rannsóknasviðs fara a.m.k. einu sinni á ári yfir rannsóknavirkni kennara og sérfræðinga.

Deildir safni saman óskum kennara og sérfræðinga um bætta aðstöðu til rannsókna, bregðist við þeim og skili skýrslu um úrbætur einu sinni á ári til rektors.

Nemendur

Erindi nemenda verði almennt afgreidd á innan við tveimur vikum og ef frestir eru ekki virtir er hægt að kvarta til næsta yfirmanns, þ.e. erindi sem ekki falla undir alvarlegar kvartanir skv. ákvæði 49. gr. reglna Háskólans. Hægt er að óska eftir lengri fresti með rökstuðningi.

Nemendur hafi greiðan aðgang að kennurum og stjórnendum annað hvort á föstum viðtalstímum eða á skipulögðum fundum.

Boðleiðir verði nemendum skýrar og þeim verði gert auðvelt að koma hugmyndum um úrbætur á framfæri, t.d. með hugmyndabanka.

Deildir

Starfsfólk á skrifstofu, skorarformenn, fulltrúar stúdenta og fulltrúar Stúdentaráðs hafi greiðan aðgang að deildarforseta annað hvort á föstum viðtalstímum eða á skipulögðum fundum.

Deildarforseti taki árlega starfsmannasamtal við alla starfsmenn deildar.

Kynningarfundir verði haldnir reglulega fyrir nýja kennara og þeim veittar nauðsynlegar upplýsingar.

Deildir gefi út ársskýrslur á netinu. Þar komi m.a. fram upplýsingar um störf kennara, réttindi og skyldur nemenda, fjölda nýnema, árangur í prófum, þreyttar einingar, fjölda starfsmanna skipt eftir störfum, rannsóknastig, meðaltal rannsóknastiga, fjármál og nýjungar innan deildar. Þessi skýrsla verði grundvöllur sjálfsmats deildar.

Sameiginleg stjórnsýsla

Árlega verði haldin námskeið um stjórnun fyrir deildarforseta, varadeildarforseta, skorarformenn, forstöðumenn stofnana og aðra starfsmenn Háskólans sem vinna við stjórnsýslu.

Erindi verði almennt afgreidd innan viku nema sérstaklega sé kveðið á um lengri frest í reglum Háskólans. Séu frestir ekki virtir er unnt að kvarta til næsta yfirmanns. Sama á við um óskir um umbætur á aðstöðu til kennslu, nema rökstudd ósk um lengri frest komi fram.

Deildir hafi sérstaka tengiliði í sameiginlegri stjórnsýslu, t.d. á starfsmannasviði, fjárreiðusviði og í námsráðgjöf.

Starfsmenn deilda og stofnana hafi greiðan aðgang að starfsmönnum í sameiginlegri stjórnsýslu annað hvort á föstum viðtalstímum eða á skipulögðum fundum. Rektor sitji deildarfundi ásamt helstu samstarfsmönnum sínum a.m.k. einu sinni á ári.

Rektor er gæðastjóri Háskólans og Stjórnsýslusvið ber ábyrgð á framkvæmd kerfisins.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is