Háskóli Íslands

Fyrir fjölmiðla

Starfsmenn Háskóla Íslands við myndatökur á jökli

Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á að miðla upplýsingum um fjölbreytt starf sitt til þjóðarinnar, sem er eigandi skólans. Til að rækja þessa skyldu leggur Háskóli Íslands áherslu á að eiga afar góð samskipti við fjölmiðla. Á vefsvæði Háskóla Íslands hefur því verið komið fyrir öflugri leitarvél að sérfræðingum skólans til að tryggja fjölmiðlum og almenningi öruggan aðgang að fræðamönnum á ólíkum sviðum.

Háskóli Íslands á mjög oft frumkvæði að samskiptum við fjölmiðla en fjölmiðlar leita einnig eftir áliti sérfræðinga við háskólann án frumkvæðis af hálfu skólans. Þegar krefjandi spurningar brenna á þjóðinni eru sérfræðingar Háskóla Íslands þannig mjög oft inntir svara. Háskóla Íslands er akkur í því að sérfræðingar skólans ræði í fjölmiðlum aðstæður í samfélaginu eða í umhverfinu eftir því sem við á.  Á þann hátt nýtist sérfræðiþekking innan Háskóla Íslands afar vel við að túlka aðstæður og við að koma upplýsingum og ólíkum fræðilegum sjónarmiðum á framfæri við almenning á skýru og skiljanlegu máli.  

Í þeirri umræðu sem tengdist hruni íslenska bankakerfisins kom t.d. fram hversu mikilvægt það er að eiga öfluga vísindamenn á fjölbreyttum fræðasviðum eins og Háskóli Íslands teflir fram. Það sama á við um eldsumbrotin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum og um hræringar á pólitískum vettvangi svo að fátt eitt sé talið.

Sérfræðingar Háskóla Íslands eru á hverju ári í hundruðum viðtala við fjölmarga innlenda og erlenda fjölmiðla. Í tengslum við eldsumbrotin í Eyjafjallajökli voru vísindamenn Háskóla Íslands t.d. í á annað þúsund viðtölum við innlendar og erlendar fréttastofur.

Í stefnu skólans er markmiðið að efla fræðslu fyrir almenning með víðtækri miðlun vísinda og nýsköpunar, s.s. á vettvangi Vísindavefsins, Háskóla unga fólksins og með fréttum, opnum fyrirlestrum, málþingum og öðrum viðburðum. Þá hefur háskólinn starfrækt svokallaða Háskólalest þar sem fræðimenn og nemendur fara um landið og kynna vísindin í litríku og lifandi ljósi. Háskóli Íslands gefur einnig út tímarit um rannsóknir innan skólans og hefur að auki unnið þáttaröð um rannsóknir innan skólans til sýningar í sjónvarpi.

Markaðs- og samskiptasvið Háskóla Íslands sér um samskipti við fjölmiðla fyrir hönd skólans.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is