Háskóli Íslands

Einingamat og einkunnir

Einingamat og einkunnir

Frá HáskólatorgiEiningamat

Fullt nám í eitt kennsluár er metið til 60 eininga í Háskóla Íslands, 30 einingar á hvoru misseri, sbr. lög um háskóla nr. 63/2006 og ákvörðun háskólaráðs 17. janúar 2008. Þar skiptir ekki máli hvort kennsluvikur á ári eru 26, 30 eða fleiri. Einingar við HÍ eru jafngildar ECTS-einingum (European Credit Transfer and Accumulation System).

Námskeiðum eru gefnar einingar í hlutfalli við innbyrðis vægi þeirra og samtala eininga allra námskeiða á sama kennsluári er 60, eða 30 á hvoru misseri. Skipting eininga á milli missera getur í einstökum tilvikum verið til dæmis 28/32 í stað 30/30.

Stúdent er þó heimilt að skrá sig í allt að 40 ECTS-einingar á misseri. Óski nemandi eftir að skrá sig umfram 40 einingar á misseri skal hann sækja sérstaklega um það til viðkomandi deildar og skal umsóknin rökstudd.

Nám til BA-, B.Ed.- og BS-prófa er 180 ECTS-einingar (3 ár) í flestum tilvikum. BS-próf í hjúkrunarfræði er 240 einingar (4 ár).

Sjá nánar um einingamat og ECTS í kennsluskrá.

Nemendur

Einkunnir eru gefnar í heilum eða heilum og hálfum tölum frá 0 - 10. Aðaleinkunn er vegið meðaltal allra einkunna til lokaprófs og reiknast hún með tveimur aukastöfum. Ágætiseinkunn er 9,0 - 10, fyrsta einkunn er 7,25 - 8,99, önnur einkunn er 6,0 - 7,24 og þriðja einkunn er 5,0 - 5,99. Stúdent telst ekki hafa staðist próf nema hann hljóti einkunnina 5,0. Samkvæmt sameiginlegum reglum Háskólans er háskóladeildum heimilt að víkja frá þessu í einstökum prófum sem teljast til prófhluta eða prófflokks með sérstaka lágmarkseinkunn. Háskóladeildum er á sama hátt heimilt að áskilja hærri eða lægri lágmarkseinkunn fyrir einstök próf, prófhluta eða prófflokka. Sérákvæði deildar um hærri eða lægri lágmarkseinkunn en 5,0 í einstökum prófgreinum, prófhlutum eða prófflokkum gilda aðeins fyrir stúdenta hlutaðeigandi deildar.

Einkunnir birtast nemendum í Uglu undir „Námskeiðin mín." Hjá Þjónustuborði geta nemendur fengið útprentuð stöðluð yfirlit þar sem einkunnir koma fram.

Nánari upplýsingar

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Sía fyrir ruslpóst
This question is for testing whether or not you are a human visitor and to prevent automated spam submissions.
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.
Þú ert að nota: drupalcl1.rhi.hi.is